Hin árlega sýning í Ráðhúsi Reykjavíkur verður haldin í tuttugusta og jafnframt síðasta sinn í nóvember næstkomandi.
Allar nánari upplýsingar um sýninguna má finna á umsóknareyðublaði en frestur til að sækja um er til 16. september. Sýningin hefur verið gríðarlega vinsæl frá upphafi en það eru listamennirnir og hönnuðirnir sjálfir sem eru á staðnum og kynna vörur sínar á sýningunni.
HANDVERK OG HÖNNUN hefur starfað óslitið frá 1994 en reksturinn hefur verið afar erfiður frá árinu 2008. Þá hafa síðustu fjögur ár verið sérstaklega erfið og hefur ekki verið hægt að ná endum saman nema með viðbótarframlagi frá stjórnvöldum.
Samkvæmt nýjum samningi við stjórnvöld vegna 2021 er ljóst að róðurinn verður enn þyngri, sá samningur er einungis gerður til ársloka og dugar fjárveitingin ekki til að halda óbreyttum rekstri. Engu að síður er stefnt að því að halda HANDVERK OG HÖNNUN í Ráðhúsi Reykjavíkur í nóvember eins og fyrr segir.
Það er mjög þungbært að þurfa að hætta starfsemi HANDVERKS OG HÖNNUNAR eftir 27 ára starf. Haldnar hafa verið fjölmargar og fjölbreyttar sýningar um allt land, margir hafa fengið ráðgjöf í tengslum við gæðamál, vöruþróun, verðlagningu og markaðsmál auk þess sem HANDVERK OG HÖNNUN er í erlendu samstarfi.