Þann 13. maí var opnuð sýning á leirvösum Rögnu Ingimundardóttur í Grafíksalnum, Hafnarhúsinu, Tryggvagötu 17. Þar sýnir Ragna 103 vasa úr steinleir sem saman mynda innsetningu í sýningarsalnum. Vasar Rögnu eru stórir og voldugir og form þeirra byggja á klassískri hefð. Þeir eru í raun skúlptúrar með svipað yfirbragð og lögun, en litir, áferð og skreyti er mismundandi sem gerir hvern vasa einstakan. Ragna tengir vasana gjarnan við ákveðnar manneskjur og kallar fram sérstök persónueinkenni sem hún túlkar með lit og áferð. Gróft yfirborð vasanna hefur vísun í jarðveg, sand, mold og leirlög. Blóm, lauf, fræhús og önnur náttúruform líða eins og skriðjurtir um yfirborð vasanna og minna á steingervinga sem varðveist hafa í jarðlögum. Hljóðinnsetning sem Ingimundur Óskar Jónsson hefur samið í tilefni af sýningunni ómar í rýminu.
Allt frá því að Ragna Ingimundardóttir lauk námi í leirlist, fyrst frá keramikdeild Myndlista-og handíðaskóla Íslands árið 1982 og síðan framhaldsnámi frá Gerrit Rietfeld Academi í Hollandi 1984 hefur hún unnið samfellt að leirlist á eigin verkstæði. Þróun og mótun stórra vasa og kerja hefur markað henni sérstöðu innan leirlistar á Íslandi og vasinn varð snemma hennar aðalsmerki.
Sýningin er opin kl. 12:00 - 17:00 alla daga nema mánudaga og stendur til 28. maí.