Elín Guðmundsdóttir
Að vinna í leir tengir mig mjög sterkt við náttúruna því frumkraftarnir fjórir, jörðin, eldurinn, loftið og vatnið skipa stórt hlutverk í allri vinnu með leirinn. Mér finnst mikilvægt að gæða verkin mín einhverskonar lífi og því verða þau oft á mörkum nytjahluta og skúlptúrs og líkjast þá ýmiss konar lífverum eins og fuglum, fiskum eða furðuskepnum. Einnig má finna áhrif frá íslenskri náttúru eða þjóðtrú í verkum mínum. Verkin mín eru öll handmótuð og samsett úr leirplötum og ósamhverfa þeirra gerir hvern hlut einstakan.
Guðrún Indriðadóttir
Það er svo stórkostlegt að geta skapað sitt eigið hugarfóstur. Sjá jörðina sjálfa umbreytast í eitthvað fallegt, áhugavert eða notadrjúgt fyrir þann sem tekur við því. Í vinnu minni með leirinn hef ég ekki aðeins kynnst efninu heldur einnig sjálfri mér. Hann hefur kennt mér bæði þolinmæði og þolgæði. Eins og í hverju ástarsambandi verður maður að leggja sig fram, gefa af sjálfum sér til að geta þegið á móti. Hrífast með en missa þó aldrei tökin og umfram allt njóta hverrar stundar.
Ingunn Erna Stefánsdóttir
Umhverfið hefur alltaf haft áhrif á mig, allt frá því að ég var að alast upp í fjöruborðinu á Kársnesinu. Fyrir mér er myndlistin órjúfanleg heild af umhverfinu, listin fléttast alls staðar saman við lífið sjálft bæði sjónrænt og tilfinningalega. Það er einstök upplifun að finna leirinn ummyndast í höndunum, sjá hann taka völdin í ofninum og umbreytast í óvænta dýrð, listaverk í samvinnu efnisins, náttúrunnar og mín.