Áhrif COVID-19 á fólk í handverki, listiðnaði og hönnun
Það er ljóst að COVID-19 faraldurinn hefur haft mikil áhrif á allt samfélagið. HANDVERK OG HÖNNUN gerði stutta könnun í byrjun apríl 2020 hjá sínum umbjóðendum og miðuðust svörin við ástandið síðustu fjórar vikur þar á undan. Markmiðið var að kanna stöðuna hjá litlum fyrirtækjum og einyrkjum sem stunda handverk, listiðnað og hönnun.
Aðstæður þessa hóps voru kannaðar og einnig var kallað eftir hugmyndum til að takast á við þessa erfiðu tíma. Þessi örstutta samantekt á niðurstöðum miðast við svör þeirra sem starfa í fullu starfi við handverk, listiðnað eða hönnun en það voru 63% þeirra sem svöruðu. Yfir 70% hafa þurft að loka eða minnka opnunartíma í galleríum/vinnustofum sínum undanfarnar fjórum vikum og þar af leiðandi orðið fyrir miklum tekjumissi. Þeir sem hafa getað haldið opnunartíma óbreyttum (eða skertum) tala um algjört hrun í sölu. Innan við 30% telja að aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar gagnist þeim að einhverju leyti. Um 70% svarenda hafa ekki sótt um neinar bætur til Vinnumálastofnunar (hvorki hlutabætur né fullar atvinnuleysisbætur).
Þessi stutta könnun gefur sláandi mynd af slæmri stöðu þessa hóps á þessum erfiðu tímum. Fólk er ráðþrota og hugmyndir til að takast á við þennan vanda voru fáar.
Hvað er til ráða?
Í framhaldi af þessum niðurstöðum er vakin athygli á að allir sem greitt hafa tryggingargjald geta sótt um bætur til Vinnumálastofnunar og eru hvattir til að kynna sér þau úrræði sem þar standa til boða. Þá hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti kynnt átaksverkefni í menningu, listum og skapandi greinum. Veittir verða styrkir og hefur eftirfarandi sjóðum verið falið að veita upplýsingar um þá: Hönnunarsjóður, Kvikmyndasjóður, Miðstöð íslenskra bókmennta, Myndlistarsjóður, Starfsemi atvinnuleikhópa og Tónlistarsjóður.
Hjá HANDVERKI OG HÖNNUN er unnið að því að finna leiðir til að koma til móts við fólk á þessum erfiðu tímum með ýmsum leiðum/verkefnum og verða þau kynnt um leið og þau liggja fyrir.