Átta meðlimir ARKA halda til San Fransisco nú í byrjun febrúar. CODEX sýningin er haldin annað hvert ár, nú í sjöunda sinn og er ein virtasta og fjölsóttasta bókakaupstefna sinnar tegundar í heiminum. ARKIR munu sýna bókverk á sameiginlegum vettvangi norrænna bókverkalistamanna undir merkjum CODEX NORDICA. Kastljósum verður einnig beint að norrænum bókverkum á málþingi CODEX kaupstefnunnar. Eitt af verkefnunum er Bibliotek Nordica, – safn bókverka valdra listamanna, en verkin eru öll unnin sérstaklega af tilefninu. Fyrir verkefninu CODEX NORDICA fer norrænn hópur sem starfað hefur að ýmsum sýningum undir heitinu CODEX POLARIS.
Listahópurinn ARKIR hefur starfað allt frá árinu 1998. ARKIR hittast reglulega til að bera saman bækur sínar, en meðlimir hópsins sinna öllu jafna margvíslegri listsköpun á sviði málara- og grafíklistar, textíllistar, ritlistar, myndlýsinga og hönnunar. Frá árinu 2005 hafa ARKIR haldið fjölda sýninga og tekið þátt í samsýningum hérlendis og erlendis.
Hægt er að fylgjast með þeim á vefsíðu þeirra og Facebook