Brennuvargar enn á ferð með sýningu

Sýning Brennuvarga á Nýp á Skarðsströnd.

Fyrstu helgina í júní munu Brennuvargar dvelja að Nýp á Skarðsströnd og brenna leirlistaverk sín í gas- og viðar brennsluofninum þar, sem er sá eini sinnar tegundar hér á landi. Brennslustjóri er Bjarnheiður Jóhannsdóttir.
Eftir brennsluna verður sett upp sýning á listaverkunum sem gerð eru til heiðurs Guðríði Þorbjarnardóttur, eins mesta heimshorna flakkara miðalda. Brennslan og sýningin er í samvinnu við Nýpurhyrnu og er þáttur í Menningardagskrá á Nýp 2021.
Opið hús verður að Nýp þann 6. júní kl. 15:00-17:00.
Eftir það er sýningin opin eftir samkomulagi og hringja þarf á undan sér í síma 8961930. Sjá nánar hér...
 
Þann 20. júní flytur sýningin sig um set í Vínlandssetrið - Leifsbúð í Búðardal og stendur þar til 31. ágúst.

 

Brennuvargar eru félagasamtök leirlistamanna sem vilja endurvekja og þróa aðferðir fortíðar og nota lifandi eld til að brenna leirmuni. Markmið þeirra er að endurvekja og þróa áfram aðferðir fortíðar við að brenna keramik í lifandi eldi og öðlast frekari þekkingu með tilraunum. Niðurstöðunum er komið á framfæri með sýningum og brennslugjörningum.
Þessar brennslur eru framkvæmdar utandyra og frumkraftar náttúrunnar, vindur, hitastig, rakastig, jörð, vatn, loft og eldur hafa áhrif á útkomuna. Einnig hefur val á eldsmat mikil áhrif á lokaniðurstöðu. Gas, viðartegundir, kúamykja, hrossatað, þang, kaffikorgur, kopar þræðir, stálull, þurrkaður gróður og alls kyns kemísk efni gefa mismunandi liti og munstur og ekki er enn séð fyrir endann á tilraunum með fleiri efni
Útkomunni úr þessum brennslum verður ekki stjórnað og hvert verk er einstakt. Listamaðurinn er þáttakandi í ferlinu en ekki allsráðandi varðandi niðurstöðuna. Ferlið tengir listamanninn við náttúruna á meðan hann fylgist með brennslunni og eldinum. Í sólarupprásinni á haustin, í bjartri sumarnóttinni og jafnvel á heiðskíru vetrarkvöldi með norðurljósin dansandi yfir. Það er stórkostlegur viðburður í hvert sinn að opna þessa ofna og sjá hvernig tilviljunarkennd orka alheimsins hefur leikið gripina.

Hér er hægt að kynna sér Brennuvargana nánar