DEIGLUMÓR, keramik úr íslenskum leir 1930 – 1970
Sýning í Hönnunarsafni Íslands þar sem þetta frjóa tímabil í leirlistarsögunni er rifjað upp.
Síðastliðin tíu ár hefur Inga S. Ragnarsdóttir rannsakað þetta tímabil 1930 - 1970 í sögu keramiklistar á Íslandi. Samtímis sýningunni er gefin út samnefnd bók sem byggir á rannsóknum Ingu. Höfundar bókarinnar eru Inga S. Ragnarsdóttir og Kristín G. Guðnadóttir. Minningarsjóður Ragnars Kjartanssonar gefur bókina út. Inga er dóttir Ragnars Kjartanssonar leirlistamanns.
Á árunum 1946 til 1957 voru stofnuð fimm leirmunaverkstæði í Reykjavík: Leirbrennsla Benedikts Guðmundssonar, Funi, Laugarnesleir, Roði og Glit. Öll áttu þau það sameiginlegt að nota íslenskan leir, fram til um 1970.
Á sýningunni eru valin verk frá ofangreindum verkstæðum. Leitast er við að gefa innsýn í framleiðslu þeirra og draga fram sérstöðu hvers og eins.
Sýningarstjórar eru Inga S. Ragnarsdóttir leirlistamaður og Kristín G. Guðnadóttir listfræðingur. Þær eru höfundar bókarinnar Deiglumór, keramik úr íslenskum leir 1930-1970, sem kemur út samtímis sýningunni. Bókin byggir á rannsóknum Ingu á sögu íslenskrar leirlistar. Í henni er fjallað um aðdraganda, upphaf og þróun íslenskrar leirlistar frá um 1930 í máli og myndum, auk þess sem saga leirnýtingar á Íslandi er rakin.
Sýningin stendur til 9. maí 2021.
Hönnunarsafn Íslands er opið alla daga nema mánudaga 12-17.