Deiglumór

 

DEIGLUMÓR, keramik úr íslenskum leir 1930 – 1970

Sýning í Hönnunarsafni Íslands þar sem þetta frjóa tímabil í leirlistarsögunni er rifjað upp.

Síðastliðin tíu ár hefur Inga  S. Ragnarsdóttir rannsakað þetta tímabil 1930 - 1970 í sögu keramiklistar á Íslandi. Samtímis sýningunni er gefin út samnefnd bók sem byggir á rannsóknum Ingu. Höfundar bókarinnar eru Inga S. Ragnarsdóttir og Kristín G. Guðnadóttir. Minningarsjóður Ragnars Kjartanssonar gefur bókina út. Inga er dóttir Ragnars Kjartanssonar leirlistamanns.

Brautryðjandinn, Guðmundur Einarsson frá Miðdal, stofnaði Listvinahúsið árið 1927. Listvinahúsið var fyrsta leirmunaverkstæðið, sem starfrækt var á Íslandi og með stofnun þess var brotið blað í sögu listiðnaðar landsins.

Á árunum 1946 til 1957 voru stofnuð fimm leirmunaverkstæði í Reykjavík: Leirbrennsla Benedikts Guðmundssonar, Funi, Laugarnesleir, Roði og Glit. Öll áttu þau það sameiginlegt að nota íslenskan leir, fram til um 1970.

Á sýningunni eru valin verk frá ofangreindum verkstæðum. Leitast er við að gefa innsýn í framleiðslu þeirra og draga fram sérstöðu hvers og eins.

Sýningarstjórar eru Inga S. Ragnarsdóttir leirlistamaður og Kristín G. Guðnadóttir listfræðingur. Þær eru höfundar bókarinnar Deiglumór, keramik úr íslenskum leir 1930-1970, sem kemur út samtímis sýningunni. Bókin byggir á rannsóknum Ingu á sögu íslenskrar leirlistar. Í henni er fjallað um aðdraganda, upphaf og þróun íslenskrar leirlistar frá um 1930 í máli og myndum, auk þess sem saga leirnýtingar á Íslandi er rakin.

Sýningin stendur til 9. maí 2021.

Hönnunarsafn Íslands er opið alla daga nema mánudaga 12-17.