17. maí, 2023
Verið hjartanlega velkomin á sýninguna Draugasteinar í Listamenn gallerí
Það eru til steinar sem ljóma í myrkri. Svokallaðir draugasteinar eða kalsedón. Þetta er hálfgegnsær kísill með daufum gler- eða fitugljáa sem hefur að geyma rafhlaðnar agnir. Ef þú finnur tvo draugasteina og nuddar þeim saman þá getur myndast ljómi, einhver neisti sem lýsir upp myrkrið.
Halla Ásgeirsdóttir sækir innblástur sinn í náttúruna, það er alltaf upphafspunktur verka hennar enda tengir leirinn hana við jörðina. Halla ólst upp í Laugarnesinu, og fjaran og náttúran í kring var leikvöllur krakkanna í hverfinu. Þar kviknaði áhugi hennar á steinum, lífrænum formum og þessum djúpa svarta lit sem sést oft í verkunum hennar. Á sýningunni Draugasteinar teflir hún saman lífrænum formum við geometríu og leikur sér með bæði liti og áferð sem birtast glöggt í formsterkum skúlptúrum hennar.
Sýningin stendur til 23. maí. Opið alla virka daga frá 9-18 og laugardaga frá 12-16.
Listamenn gallerí
Skúlagötu 32
101 Reykjavík