10. ágúst, 2021
FG
Fimmtudaginn 12. ágúst klukkan 17.00 opnar sýningin Endurofið í Flæði að Vesturgötu 17.
Sýningin samanstendur af afrakstri samnefnds verkefnis. Endurofið er rannsóknarverkefni sem fjallar um sjálfbærni og endurvinnslu á textíl og fatnaði.
Í ferlinu hefur verið tekið á móti efniviði frá einstaklingum og Rauða Krossinum til þess að rannsaka hvernig hægt er að nýta efniviðinn áfram. Með íslenska handverkshefð og menningararfleifð að leiðarljósi er leitast eftir því að skapa flíkur og efni sem eiga heima í samtímanum.
Markmiðið með rannsókninni er að endurskilgreina virði textíls og fatnaðar. Vaðmál, ofið klæði í ákveðinni stærðareiningu, varð lögfestur gjaldmiðill á Víkingaöld, virði textíls var töluvert og vinnutímarnir á bak við klæði voru margir. Í dag göngum við að því sem sjálfsögðum hlut að geta keypt okkur ódýran fatnað á sama tíma og textíliðnaðurinn er annar stærsti mengunarvaldur í heimi.
Verkefnið
Endurofið er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Það vinna Álfrún Pálmadóttir og Ása Bríet Brattaberg. Leiðbeinandi er Ólafur Rastrick dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands og faglegur ráðgjafi er Ragna Fróðadóttir, forstöðumaður Edelkoort inc.
Opnunartímar:
12. ágúst: 17-20
13. ágúst: 13-17
14. ágúst: 13-17