Endurvarp

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir
Ljósm. Helgi Vignir Bragason
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir
Ljósm. Helgi Vignir Bragason

Verið velkomin sýninguna Endurvarp með verkum eftir Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur í Listvali á Granda.

Á sýningunni Endurvarp kannar Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir mörk málverks og vefnaðar, þar sem verkin verða hugleiðing og tilraun til að fanga óstöðugt ástand lita.
Litir birtast á mismunandi hátt í verkunum og hafa áhrif hver á annan. Liturinn er ýmist ofinn inn í efnið eða málaður á fleti sem vísa fram eða til hliðar. Litafletir varpast á vegginn og birtast á mismunandi hátt eftir birtuskilyrðum, samspili við aðra liti og augum þeirra sem horfa.
Ingunn Fjóla veltir fyrir sér hvernig við skynjum listaverk – er það hluturinn sjálfur eða upplifunin af honum sem við skynjum? Er litur áþreifanlegur eða óáþreifanlegur – er hægt að snerta hann? Eðlisfræðilega séð eru litir ljósbylgjur með mismunandi bylgjulengdir. Við sjáum liti vegna eiginleika efna sem varpa frá sér bylgjum sem augu okkar og heilar nema. En hvaða merkingu finnum við í litum? Táknræn merking lita getur breyst eftir samhengi, menningarheimum og tímabilum. Til dæmis getur rauður litur táknað ást eða reiði eða einfaldlega stopp, allt eftir samhenginu sem hann birtist í. Litir eru afstæðir, og við finnum öll okkar eigin merkingu í litum eftir upplifun og skynjun.
 
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir (f. 1976) útskrifaðist með MA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2017 og BA gráðu í myndlist frá sömu stofnun árið 2007. Hún er einnig með BA gráðu í listasögu frá háskólanum í Árósum frá 2002. Ingunn Fjóla fæst aðallega við málverk og innsetningar. Í listsköpun sinni byggir hún gjarnan á sögu naumhyggjunnar og abstraktmálverksins. Verk hennar fela oft í sér gagnvirkni eða beina þátttöku og teygir hún þannig svið málverksins inn í opið kerfi þar sem verkin lifna við fyrir tilstilli áhorfenda og rýmisins. Verk Ingunnar hafa verið sýnd víða í galleríum og söfnum á Íslandi sem og erlendis. Ingunn Fjóla er handhafi Guðmunduverðlaunanna 2022.
 
Sýningin stendur til 4. mars 2023.

Sjá nánar á vef Listvals: listval.is