Erindi um íslensku lopapeysuna í kvöld, fimmtudaginn 30. nóvember kl. 20
Fáar flíkur eru tengdari íslensku þjóðarsálinni heldur en lopapeysan, en hver er saga hennar? Um það fjallar Ásdís Jóelsdóttir lektor í textíl við menntavísindasvið Háskóla Íslands í erindi sem haldið verður fimmtudaginn 30. nóvember kl. 20 í húsnæði Heimilisiðnaðarfélags Íslands í Nethyl 2e. Allir hjartanlega velkomnir – kjörið að taka prjónana með.
Tilefni erindisins er nýútkomin bók Ásdísar sem ber titilinn ÍSLENSKA LOPAPEYSAN – uppruni, saga og hönnun. Bókin er 300 blaðsíður og er ríkulega myndskreytt, ritrýnt fræðirit útgefið af Háskólaútgáfunni. Bókin byggir á víðtækri rannsókn á rituðum heimildum, ljósmyndum og viðtölum við fjölda aðila.
Íslenska lopapeysan hefur löngu fest sig í sessi sem mikilvæg tísku- og minjavara enda séríslensk frumhönnun sem mótast hefur í samvinnu margra aðila. Eins og fram kemur í bókinni á uppruni peysunnar sér dýpri rætur í prjóna- og munstursögu en löngum hefur verið talið. Saga hennar er líka mikilvægur hluti af handverks-, hönnunar-, atvinnu, iðnaðar- og útflutningssögu þjóðarinnar og er markmiðið með bókinni að varðveita þá sögu.