Frá draumi í framkvæmd – nýsköpun í prjónaiðnaði

Frá draumi í framkvæmd – nýsköpun í prjónaiðnaði

Ágústa þóra Jónsdóttir stofnandi Gústu ehf. hönnunar og prjónafyrirtækis heldur erindi hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands í Nethyl 2e föstudaginn 17. nóvember kl. 20. Ágústa átti sér þann draum að búa til íslenskt garn sem er mýkra en venjulegt lopaband. Aðgangur ókeypis – allir velkomnir!

Ágústa átti sér þann draum að búa til íslenskt garn sem er mýkra en venjulegt lopaband. Árið 2015 fékk hún tækifæri til þess að þróa þessa hugmynd og gera hana að veruleika. Hún stofnaði fyrirtækið Gústa ehf í byrjun ársins 2016 og fyrsta varan Mosi mjúkull, sem er blanda af íslenskri ull og alpakka ull frá Perú, kom á markað í október 2016. Prjónauppskriftirnar eru ókeypis og hægt að nálgast þær á vefsíðunni gusta.is.

Rúm tvö ár eru liðin frá stofnun fyrirtækisins, og er vörurnar seldar í fjölda verslana á Íslandi og vefsíðan er vinsæl með fjölda heimsókna á hverjum degi. Ágústa mun fjalla um það ferli að stofna nýtt fyrirtæki á Íslandi og hvernig hægt er að þróa vöru og koma á markað án þess að byggja eigin verksmiðjur eða framleiðslutæki. Ágústa er mikil áhugamannsekja um umhverfismál og mun hún koma inn á ábyrgð fyrirtækja á markaði varðandi efnisval og umhverfið og áskoranir neytenda og framleiðenda.

Bakgrunnur Ágústu liggur í lyfja- og líftæknigeiranum, þar hefur hún unnið í fjölda ára við markaðssetningu og viðskiptaþróun. Hún mun ræða hvað þessir geirar eiga sameiginlegt og hvernig hún getur nýtt sér þá reynslu til að markaðssetja, þróa og hanna ullarvörur. Hún mun ræða um hvaða leiðir hægt er að velja til að markaðssetja sig og ná fótfestu á markaðnum, hverjar eru áskoranirnar og hvað er auðveldara. Er raunverulega mögulegt að stofna nýtt fyrirtæki úr engu og fá nægar tekjur af því?