Sýning í Listasafni Árnesinga á listmunum úr leir en kjarni hennar er heimildarmyndin Raku – frá mótun til muna. Myndin var tekin upp haustið 2017 þegar Handverk og hugvit undir Hamri sem starfar í Hveragerði efndi til vinnusmiðju í rakúbrennslu og byggingu á tilheyrandi viðarkynntum ofni með sænskum leirlistamanni, Anders Fredholm. Einnig var unnið með aðrar gamlar leirbrennsluaðferðir. Frumkvæðið áttu Steinunn Aldís Helgadóttir, Hrönn Waltersdóttir og Ingibjörg Klemenzdóttir og fór vinnusmiðjan fram í og við vinnustofu Ingibjargar að Hellugljúfri 2 í Ölfusi. Framleiðendur kvikmyndarinnar eru Jónatli Guðjónsson (Rec Studio), Stefán Loftsson (Rent-A-Lens), Atli Rúnar Halldórsson sem sá um viðtölin og Steinunn Aldís Helgadóttir sem var verkefnastjórinn.
Auk heimildarmyndarinnar má sjá verk sem brennd eru með þeirri tækni sem unnið var með og eru eftir þátttakendurna sem allir eru starfandi leirlistamen og komu víðsvegar af landinu. Þeir eru Bjarnheiður Jóhannsdóttir, Guðbjörg Björnsdóttir, Hólmfríður Arngrímsdóttir, Hrönn Waltersdóttir, Ingibjörg Klemenzdóttir, Katrín V. Karlsdóttir, Ólöf Sæmundsdóttir, Steinunn Aldís Helgadóttir og Þórdís Sigfúsdóttir. Verkin á sýningunni voru sum unnin í vinnusmiðjunni en flest eru unnin á þessu ári. Sýningarstjóri er Inga Jónsdóttir.
Sýningin stendur til 21. október 2018.