Kjarni þessarar farandsýningar sem nú er sett upp í fimmta skipti er heimildarmyndin – Raku frá mótun til muna, hún var tekin upp og unnin haustið 2017. Þegar Handverk og hugvit undir Hamri í Hveragerði fékk kennarann og listamanninn Anders Fredholm frá Svíþjóð til að halda vinnustofu um byggingu á viðarbrennslu-rakuofni og aðrar frumstæðar leirbrennslur við opinn eld. Út frá námskeiðinu hjá Anders myndaðist sterkur hópur níu kjarnakvenna sem kalla sig Brennuvarga.
Brennuvargar er félag leirlistamanna sem sérhæfa sig í brennslu keramiks með lifandi eldi. Markmið þeirra er að endurvekja og þróa áfram aðferðir fortíðar við að brenna keramik í lifandi eldi og öðlast frekari þekkingu með tilraunum. Niðurstöðunum er komið á framfæri með sýningum og brennslugjörningum.
Þessar brennslur eru framkvæmdar utandyra og frumkraftar náttúrunnar, vindur, hitastig, rakastig, jörð, vatn, loft og eldur hafa áhrif á útkomuna. Einnig hefur val á eldsmat mikil áhrif á lokaniðurstöðu. Gas, viðartegundir, kúamykja, hrossatað, þang, kaffikorgur, kopar þræðir, stálull, þurrkaður gróður og alls kyns kemísk efni gefa mismunandi liti og munstur og ekki er enn séð fyrir endann á tilraunum með fleiri efni
Útkomunni úr þessum brennslum verður ekki stjórnað og hvert verk er einstakt. Listamaðurinn er þáttakandi í ferlinu en ekki allsráðandi varðandi niðurstöðuna. Ferlið tengir listamanninn við náttúruna á meðan hann fylgist með brennslunni og eldinum. Í sólarupprásinni á haustin, í bjartri sumarnóttinni og jafnvel á heiðskíru vetrarkvöldi með norðurljósin dansandi yfir. Það er stórkostlegur viðburður í hvert sinn að opna þessa ofna og sjá hvernig tilviljunarkennd orka alheimsins hefur leikið gripina.