Fyrirvari

FYRIRVARI

Brynjar Sigurðarson og
Veronika Sedlmair

Sýningin Fyrirvari miðar að því að þýða eða tengja saman „hluti“ í umhverfinu – þ.e.a.s. náttúru-, borgar- og menningarumhverfi – við hugmyndir og hugleiðingar að nýjum „hlutum“. Þessar þýðingar geta falið í sér að útfæra áferð og efni ýmissa hluta í borgarumhverfi yfir í þrívíða hluti, eða að rannsaka form og útsetningar í efni. Vinna er séð sem eins konar röð möguleika og uppspretta fyrir nýja „hluti”.

Allir miðlar og öll stig vinnunnar eru séð á jöfnum grundvelli og þar með verða ljósmyndir, skissur, teikningar, efnisprufur, hlutir, hljóð, texti og myndbönd sýnd í sameiningu á sýningunni. Miðlar flæða saman og hafa áhrif hver á annan. Úr ljósmynd í teikningu, í þrívídd, í hlut, í hljóð, í myndband…

Hljóð verður kveikja að hlut og ljósmynd spinnur af sér formæfingar í teikningu. Markmið sýningarinnar er að nýta og sýna öll þessi stig og miðla eða setja fram eins konar kortlagningu á tengingum milli mismunandi hluta og viðfangsefna. Sýningunni er ætlað að leggja fram og myndgera ferli, hugmyndir og uppsprettur. Ferðalag í gegnum hugmyndir, rannsóknir, æfingar og „hluti“.

Á þessari sýningu verður sköpunarferlið sjálft sýningarefnið, mismunandi stig hluta og hugmynda verða sýnd og opnuð almenningi til athugunar. Með því að opna ferlið allt og sýna þróun hugmynda gefst viss dýpt og ný sjónarhorn myndast.

Sýningin stendur til 26. maí 2019