Í Þjóðminjasafni Íslands eru varðveitt rúmlega 60 glitofin söðuláklæði og mörg til viðbótar á minja- og byggðasöfnum á Íslandi sem flest eru frá 19. öld. Í fyrirlestrinum verður fjallað um söðuláklæðin, gerð þeirra, notkun og sérkenni og komið inn á þann mun sem er á glitofnum og glitsaumuðum áklæðum. Það sem einkum vekur athygli við söðuláklæðin er að þau eru alsett litfögru glitofnu eða glitsaumuðu munstri á svörtum einskeftugrunni. Rýnt verður í vefnaðartegundina og munsturhefðina, hvað einkennir hana og hvaðan munstrin eru hugsanlega upprunin.
Ragnheiður Björk Þórsdóttir er fædd og uppalin á Sauðárkróki. Hún stundaði nám við Myndlistar- og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist frá textíldeild skólans árið 1984, tók MFA í J.F.K. University í Bandaríkjunum 1984–85 og útskrifaðist sem menntunarfræðingur M.Ed. frá Háskólanum á Akureyri árið 2009. Ragnheiður lagði stund á myndvefnað í Frakklandi árin 1989 og 1990, hefur lært að vefa í kljásteinavefstaðinn gamla og tileinkað sér vefnað í stafrænum TC2 vefstól. Ragnheiður hefur starfað sem grunn- og framhaldsskólakennari í yfir 30 ár og hefur stýrt rannsókn á vefnaði hjá Þekkingar- og textílsetri Íslands á Blönduósi sl. tvö ár. Ragnheiður rekur gallerí Stóllinn á Akureyri.
Verið öll velkomin. Ókeypis aðgangur.