Laugardaginn 22. október kl. 13-16 er handverksdagur í Heimilisiðnaðarskólanum. Þennan dag býðst börnum og fullorðnum að koma og vinna saman að skemmtilegu handverki. Patrick kennir að sauma bolta og halda þeim á lofti tveimur til þremur í einu og Marianne kennir viðstöddum að kríla bönd. Verkefnin henta öllum aldurshópum, börnum, foreldrum, öfum og ömmum og öðrum áhugasömum. Gert er ráð fyrir að þátttakendur geti tekið þátt í bæði í boltagerðinni og kríli.
Kanntu að joggla?
Nú er tækifærið til að sameina handverk og sirkuslistir! Á námskeiðinu eru gerðir boltar sem henta vel til að halda á lofti tveimur til þremur einu. Boltarnir eru ýmist úr blöðrum fylltir hrísgrjónum (fyrir yngstu þátttakendurna) eða saumaðir úr leðri fylltir grjónum. Þegar boltarnir eru tilbúnir er nemendum kennd kúnstin við að halda boltum á lofti. Kennari: Patrick Hassel-Zein.
Kríluð bönd
Á námskeiðinu er kennt að kríla bönd en svo kallast aðferð þar sem notuð eru allt að sex bönd til að flétta. Sumum aðferðunum fylgja skemmtilegar sögur um prinsa og prinsessur til að auðvelda nemendunum lærdóminn. Kríluð bönd eru til margra hluta nytsamleg í alls kyns skraut og skreytingar. Þetta handverk hentar mjög vel börnum en er ekki síður spennandi fyrir fullorðna. Kennari: Marianne Guckelsberger.
Námskeiðsgjald: 5.000 kr (4.500 kr fyrir félagsmenn HFÍ) á barn og foreldri fyrir bæði námskeiðin, systkinaafsláttur 50% - efni er innifalið. Námskeiðið fer fram í Heimilisiðnaðarskólanum í Nethyl 2e. Skráning á netfangið skoli@heimilisidnadur.is eða í síma 551 5500.