"Handverkshátíð hefur löngu sannað tilvist sína sem vettvangur þar sem hittist handverksfólk víðs vegar að af landinu, skemmra sem lengra komnir, einstaklingar sem handverkshópar. Sú var einmitt hugmyndin að baki hátíðinni í upphafi – að leiða fólk saman sem deildi þeirri sameiginlegu sýn að efla íslenskt handverk og tryggja að þekking á gömlu íslensku handverki færðist milli kynslóða.
Þema Handverkshátíðar 2017 er tré. Við munum við gera okkar ástkæra tré hátt undir höfði og höldum hátíð trésins. Sænski heimilisiðnaðarráðunauturinn Knut Östgård ætlar að heiðra okkur með nærveru sinni. Knut er okkur af góðu kunnur og hefur útvegað Handverkshátíðinni sérfræðinga í þjóðlegu handverki í gegnum tíðina. Hann hefur unnið sem heimilisiðnaðarráðunautur í 27 ár, haldið fjöldann allan af námskeiðum, gert fræðslumyndbönd, gefið út bækur og staðið fyrir sýningum og verkefnum sem hafa farið um öll norðurlöndin. Knut Östgård verður einn af sýnendum hátíðarinnar auk þess sem hann mun halda námskeið og fyrirlestra.
Það er okkur einnig sannur heiður að kynna til íslensku sögunnar sænska farandssýningu sem ber nafnið UR BJÖRK eða úr birki. Að sýningunni standa 22 handverksmenn og –konur sem skiptu á milli sín heilu birkitré og fengu það hlutverk að nýta allt efnið með frjálsum huga og höndum. Knut er einn af aðstandendum sýningarinnar og segist hafa lengi dreymt um að vinna verkefni eins og þetta. Nú er það orðið að veruleika og sýningin komin í heimsókn alla leið til Íslands og alla leið á Hrafngil í Eyjafjarðarsveit. Það tók hópinn 6 mánuði að vinna alla þessa muni og það skal tekið fram að allt var nýtt af þessu tiltekna tré. Birkitréð var 25 metra hátt, 30 cm. í þvermál og afraksturinn 400 hlutir. Verðmætaaukning er ótvíræð þegar nytjalist er unnin úr tré og UR BJÖRK virkilega falleg og stórbrotin sýning sem enginn ætti að láta framhjá sér fara."
Nánari upplýsingar á www.handverkshatid.is