Handverkshátíð og Matarstígur Helga magra hafa tekið höndum saman fyrir sumarið 2021 og munu vera með reglulega bændamarkaði þar sem lögð verður áhersla á mat og handverk úr Eyjafjarðarsveit. Þá verður félagasamtökum, handverksfólki, matvælaframleiðendum og öðrum þjónustuaðilum í sveitarfélaginu boðið að setja upp dagskrá hjá sér og auglýsa í tengslum við dagskrá Handverkshátíðar og Matarstígs Helga magra árið 2021. Með þessu vilja stjórn og aðrir aðstandendur Handverkshátíðar halda nafni hátíðarinnar á lofti og stuðla að skemmtilegum viðburðum víðsvegar um Eyjafjarðarsveit á árinu 2021 í góðu samstarfi við Matarstíg Helga magra.
Handverkshátíðin í Eyjafjarðarsveit hefur verið haldin á hverju ári, 28 ár í röð, allt þar til í fyrra þegar áhrif af Covid 19 setti strik í reikninginn. Aðstandendur telja að eðli hátíðarinnar sé þannig að ekki sé ábyrgt að halda hana með óhefðbundnu sniði þar sem svo margir sýnendur og gestir koma saman á stuttum tíma en um 10 -15 þúsund gestir og yfir 100 sýnendur sækja Handverkshátíðina ár hvert.
Handverkshátíðin er ein helsta fjáröflun ýmissa félaga í Eyjafjarðarsveit og hafa félagsmenn lagt á sig umtalsverða sjálfboðavinnu í þágu samfélagsins í gegnum árin til að halda frábæra Handverkshátíð. Er ákvörðun þessi því ekki léttvæg og einungis tekin af vel ígrunduðu máli en ljóst er að ákvörðunin kemur sér ekki vel fyrir fjárhag félaganna en ábyrgðarhlutverkið er þó talið vega meira á þessum sérkennilegu tímum.
Með óhefðbundnu sniði verður gestum og gangandi nú boðið að sjá brot af því besta úr Eyjafjarðarsveit árið 2021 og vonandi ná sem flestir að njóta.