Menningarviðburðurinn Homo Faber verður haldinn í Feneyjum 9. apríl – 1. maí. Viðburðurinn, sem haldinn er af Michelangelo Foundation, er tileinkaður nútíma listhandverki og var fyrst haldinn 2018.
Haldnar verðar fimmtán viðamiklar sýningar með áherslu á fjölbreytt listhandverk í umsjón þekktra hönnuða, sýningarstjóra og arkitekta víðsvegar að úr heiminum. Að þessu sinni er sérstök áhersla á listhandverk frá Japan og hvernig Japanir hafa náð að viðhalda gamalli handverkshefð sem hefur haft áhrif á handverk um allan heim.
Framúrskarandi listhandverksmenn af ýmsum þjóðernum sýna hversdagslega hluti til daglegra nota sem og einstaka skrautmuni unna úr fjölbreyttum hráefnum, með mismunandi tækni og af ólíkum uppruna.
Einnig verður hægt að upplifa á sýningarnar stafrænt með gagnvirkum hætti.
Allar nánari upplýsingar og miðakaup á www.homofaber.com
HANDVERK OG HÖNNUN skrifaði undir samstarfssamning við Michelangelo Foundation í ársbyrjun 2020. Stofnunin, sem ber undirtitilinn "for Creativity and Craftsmanship" er staðsett í Genf í Sviss. Markmið hennar er að vekja athygli á og varðveita evrópskt handverk og styrkja tengsl þess við hönnunarheiminn. Að enduruppgötva og vekja athygli á getu mannsinns til að skapa og búa til með höndunum - og styðja við og hvetja þá sem gera það best. Að kynna sérstaklega einstaka evrópska listamenn sem nota gamlar hefðir, færni og þekkingu til að gera framúrskarandi hluti.