26. febrúar, 2019
Á laugardag, 2. mars lýkur sýningu Ástu Vilhelmínu Guðmundsdóttur í í "Herberginu" í Kirsuberjatrénu Vesturgötu 4, 101 Reykjavík.
Sýningarstjóri er Halla Bogadóttir
Sýningin er opin á opnunartíma Kirsuberjatrésins.
Nánar um sýninguna hér
Orð sýningarstjóra um HRAFNASPARK Ástu Vilhelmínu Guðmundsdótttur:
Ég hef fylgst með sköpun Ástu um árabil, sem fatahönnuður þar sem hún fetaði ótroðnar slóðir. Ásta vann á afar frumlegan hátt. Þegar flíkin var skoðuð komst maður ekki hjá því að skoða textílinn, skoða hvernig þráðurinn hafði sameinast öðrum þræði og unnist upp og orðið að klæði. Hvert klæði hafði sín sérkenni. Ásta braut upp þá sýn sem okkur hafði verið innrætt í barnaskólum landsins og þráðurinn öðlaðist nýjan tilverurétt. Mér fannst þetta skemmtileg upplifun og hönnun Ástu kveikti með mér nýja sýn.
Ásta heldur áfram sköpuninni. Hún hefur á undanförnum árum tekið þátt í listsýningum víða um heim, leitað nýrra leiða í tjáningu sínni – en haldið í þráðinn og títuprjóninn. Nú hefur pensilinn bæst í hópinn og sýnir Ásta nú verk þar sem þetta þrennt tvinnast saman – Myndverk á pappír – Myndverk á textíl – Klæði sem myndverk.
Ásta nefnir sýningu sína Hrafnaspark og vísar til orða barnabarnsins síns, sem sagði: "Amma þetta er bara krass".
Þegar betur er að gáð sér maður hvernig Ásta hefur unnið með þráðinn; allt frá því að menntast til fatahönnunar, ferlið inn í myndlistarheiminn; í teikningunni birtist mannvera umvafinn þráðum, þráðum sem leika létt um líkamann og allt leysist svo upp.
Orðabók Menningarsjóðs skýrir orðið Hrafnaspark á þennan hátt: torlesin, ljót skrift. Nú fær orðið nýja merkingu.
Gefum Hrafnasparki betri gaum.
Halla Bogadóttir