Á sýningunni Ígrundað handahóf sýnir Hildur Bjarnadóttir sex ný verk sem unnin voru eftir að vinnu við sýningu hennar Vistkerfi lita sem stendur yfir í vestursal Kjarvalsstaða lauk. Í verkunum í Hverfisgalleríi heldur Hildur áfram að vinna með þá efnislegu nálgun sem er til staðar í Vistkerfi lita og þá upplifun sem felst í samspili verka úr lituðu silki og ofnum málverkum. Við gerð verkanna eru notaðir litir úr plöntum af landspildu hennar í Flóa, ásamt akrýllitum úr túpum.
Í verkum Hildar er kerfisbundin ákvarðanataka bæði grunnur og viðfangsefni í senn. Hildur hefur sjálf lýst kerfunum sem hún vinnur með sem huglægum kerfum. Þetta eru kerfi sem hún ákvarðar sjálf, setur reglurnar og þróar viðfangsefnið með. Í nýju ofnu málverkunum er kerfið bundið reglu um endurtekningu. Þræðir af sama lit endurtaka sig á kerfisbundinn hátt og framkalla þannig myndflöt sem er í senn samsafn af punktum og mislitum flötum, eftir því hvar áhorfandinn staðsetur sig. Kerfið er reglulegt en skynjun okkar á niðurstöðunni ræðst af fleiru en vinnuaðferðinni.
Verkin á sýningunni Ígrundað handahóf einkennast af annars konar reglu, annars konar kerfi, annars konar ákvörðunum en í Vistkerfi lita. Viðfangsefnið sem Hildur hefur afmarkað sér við gerð þeirra er samspil efnis og litar, ekki í hefðbundnum skilningi myndbyggingar, heldur sem þáttur í því að leiða til lykta spurningar sem sækja merkingu sína í annað og stærra samhengi. Silkiverkin eru sniðin að rými Hverfisgallerís, þau eru afsprengi arkitektúrs rýmisins gólfi, lofti og veggjum. Líkamleg nánd efnisins og hlutföll formanna vísa til rýmis upplifunar, þetta er arkitektúr sem lesinn er í hlutfalli við eigin líkama.
Silkið sækir, líkt og þræðirnir í ofnu verkunum, liti sína í tvö ólík litakerfi. Hér er þó ekki um endurtekningar að ræða, heldur kerfi sem sækir reglu sína í fagurfræðilegar og rýmislegar ákvarðanir, sem teknar eru með sjónræna eiginleika verkanna í huga. Verkin hafa sterka skynræna nærveru, í saumuðu línunum, í silkinu og í litunum. Hvað gerist þegar litur, sem sækir merkingu sína í uppruna sinn, er beitt sem þætti í verki sem lýtur slíkum reglum? Hvað gerist þegar aðferðum og efnum sem þessum er beitt innan kerfis þar sem reglukerfið er fagurfræðilegt? Hér er myndræn framsetning notuð til þess að fást við spurningar af þessu tagi. Svörin verða ekki sett í orð svo vel sé, heldur liggja þau á mörkum skynreynslu og hugtaka.
Hildur Bjarnadóttir (1969) býr og starfar í Reykjavík og í Flóahreppi. Hún lauk námi frá textíldeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1992 og útskrifaðist árið 1997 með MFA próf frá nýlistadeild Pratt Institute í Brooklyn, New York. Haustið 2013 hóf Hildur doktorsnám í myndlist við Listaháskólann í Bergen og mun ljúka því í byrjun næsta árs.
Hildur hefur haldið fjölda einkasýninga víða um heim, þær helstu eru: Colors of Belonging í Bergezn Kjøtt í Noregi 2015; Subjective Systems í Kunstnerforbundet í Osló og Kortlagning lands í Hverfisgalleríi árið 2014; Flóra illgresis í Hallgrímskirkju 2013; Samræmi í Hafnarborg í Hafnarfirði ásamt Guðjóni Ketilssyni 2011; Encircling í Pollock Gallery, Southern Methodist University í Texas í Bandaríkjunum 2008; Ígildi í Safni, Bakgrunnur í i8 og Flötur í Listasafni ASÍ árið 2006 og Unraveled í The Boise Art Museum í Boise, Idaho 2005.
Hildur hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum og þar má meðal annars nefna Your Compound View í Listasafni Reykjavíkur, 2013; Elemental, Havremagasinet í Bodø, Svíþjóð og Carnegie Art Award Exhibition, Stenersens Museum í Osló, 2012-13; Sjónarmið – á mótum myndlistar og heimspeki í Listasafni Reykjavíkur, 2011; Project Ten Ten Ten, The Mint Museum í Charlotte, Norður-Karólínu, BNA, 2010; Blurring the Line, Pulliam Deffenbaugh Gallery í Portland, Oregon, BNA, 2008; Radical Lace and Subversive Knitting, The Museum of Art and Design í New York, BNA, 2007 og Málverkið eftir 1980 í Listasafni Íslands, 2006.
Sýningin stendur til 14. janúar 2017.