Sendiráð Íslands í Osló stendur fyrir íslenskum markaðsdögum á SALT útisvæðinu í miðborg Oslóar dagana 15.-17. júní nk., í samstarfi við Íslandsstofu. Þar gefst áhugasömum aðilum tækifæri til að kynna vörur sínar og þjónustu.
Markaðurinn er tilvalinn vettvangur fyrir íslensk fyrirtæki sem þegar eru á norska markaðinum, sem og aðila á Íslandi sem óska eftir kynningu í Noregi, og getur til dæmis hentað til að kynna hönnunarvörur, listvörur, matvæli og ferðaþjónustu.
Markaðurinn verður opinn frá föstudegi til sunnudags og á meðan á honum stendur verður boðið upp á ýmsa íslenska viðburði á svæðinu. SALT er opið gestum og gangandi og er svæðið vinsælt bæði meðal borgarbúa og ferðamanna.
Íslandsstofa kannar áhuga fyrirtækja á að nýta þetta tækifæri til kynningar á vörum eða þjónustu í Noregi.
Hér má sjá upplýsingar um viðburðinn á Facebook
Áhugasamir eru beðnir að hafa samband við Oddnýju Arnarsdóttur á netfangið oddny@islandsstofa.is, fyrir 28. maí nk.