Jólasýning Grósku, félags myndlistarmanna í Garðabæ, verður opnuð á Aðventuhátíð Garðabæjar á Garðatorgi laugardaginn 26. nóvember kl. 13-16. Sýningin er tileinkuð jólunum í margbreytilegum myndum. Jólin eru hátíð ljóss og friðar, gleði og skemmtana en stundum tengjast sorg og sársauki jólunum því margir eiga erfitt. Jólin hafa verið haldin heilög til að fagna fæðingu Krists en forðum var þetta helg hátíð þar sem glaðst var yfir endurkomu sólar við vetrarhvörf. Búast má við fjölbreyttri sýningu hjá Grósku en auk þess sem málverk og myndir verða til sýnis á flekum á Garðatorgi teygir sýningin sig inn í verslunina Me&Mu. Listamenn frá Grósku verða á staðnum. Margt fleira er um að vera á Garðatorgi á Aðventudagskrá Garðabæjar. Sýning Grósku stendur fram yfir þrettándann.