Jónsmessugleði Grósku er beðið með ofvæni og verður hún haldin í ellefta sinn fimmtudaginn 20. júní kl. 19.30-22. Eins og endranær verða fjölbreytileg listaverk til sýnis við Strandstíginn í Sjálandshverfi Garðabæjar. Auk félaga úr Grósku, myndlistarfélagi Garðabæjar, koma gestalistamenn frá Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjavík og Blönduósi. Sýnd verða málverk á striga, innsetningar og önnur verk og hægt verður að fylgja fjölbreytilegum þráðum því þemað er að þessu sinni „Þræðir“.
Jónsmessugleði Grósku teygir sig inn í Jónshús til málverkasýningar eldri borgara og til ungu listamannanna í Skapandi sumarstarfi sem sýna vestast við Strandstíginn og verða líka með önnur listatriði. Ungir sem aldnir láta ljós sitt skína enda er Jónsmessugleði fyrir fólk á öllum aldri. Auk sjálfrar sýningarinnar verða margir skemmtilegir listviðburðir á dagskrá, svo sem söngur, tónlist, leiklist og fleira og Gróska býður upp á veitingar. Að venju lýkur Jónsmessugleði Grósku svo með óvæntum gjörningi kl. 22.
Ylströnd með fallegri sjávarsýn myndar hrífandi vettvang fyrir Jónsmessugleði Grósku og einkunnarorðin gefum, gleðjum og njótum slá tóninn fyrir þá glaðværu stemningu sem ríkir um kvöldið. Gróska stendur fyrir Jónsmessugleði í samstarfi við Garðabæ en jafnan koma líka listamenn og gestir frá öðrum bæjarfélögum.
Gróska er á tíunda starfsári og má segja að félagið hafi orðið formlega til í framhaldi af fyrstu Jónsmessugleði sem haldin var fyrir ellefu árum. Grósku hefur tekist að festa sig í sessi í menningarlífi Garðabæjar svo um munar með árvissum og einstökum viðburðum og hlaut nýlega viðurkenningu á Menningaruppskeruhátíð Garðabæjar fyrir merkt framlag til menningar og lista. Jónsmessugleði er umfangsmesti viðburður Grósku og hefur vaxið og dafnað með félaginu sjálfu.
Allir eru velkomnir á Jónsmessugleði Grósku, Garðbæingar jafnt sem aðrir. Fólk er hvatt til að fjölmenna og gera einkunnarorð Jónsmessugleði að sínum með því að gefa, gleðja og njóta.