Í vor opnaði sýning í Kornhúsinu á Árbæjarsafni um líf og störf Karólínu Guðmundsdóttur, sem rak um árabil vefstofu á Ásvallagötu í Reykjavík. Næstkomandi sunnudagur verður tileinkaður Karólínu og verður skemmtileg dagskrá í boði á Árbæjarsafni frá klukkan 14-16. Félagar í Heimilisiðnaðarfélagi Íslands verða á safninu að spjalla um og sýna handverk, auk þess sem að Lára Magnea Jónsdóttir textílhönnuður verður með fjölskyldusmiðjuna Trikk og Trix í krosssaumi- hvernig er best að byrja?
Þátttakendur þurfa að skrá sig á smiðjuna með Láru Magneu og eru tvær tímasetningar í boði, klukkan 14 og 15. Skráning fer fram á tölvupóstfanginu leidsogumenn@reykjavik.is. Sóttvarnareglna verður gætt í hvívetna. Aðgöngumiði á safnið er 1.800 krónur og gildir hann til þátttöku í smiðjunni. Innifalið er smápakkning (7x7 cm) með stramma, nál, garni og mynstri. Einnig verður í boði að kaupa nálapúðapakkningu (10x10 cm) á 1.800 krónur eða krosssaum Karólínu (15x15 cm) á 7.850 krónur. Börn, öryrkjar og handhafar menningarkorts fá frítt inn á safnið.
Nánar um viðburðinn á Facebook