Sýning Rósu Sigrúnar byggist á tilraunum hennar með fundin náttúruleg efni en Rósa hefur safnað feyskjum af njóla, kerfli og stráum.
Plönturnar hafa lokið hlutverki sínu, eru sölnaðar og það rotnunarferli er hafið sem færir þær aftur til moldarinnar þar sem þær verða
henni næring sem fóðrar nýja upprisu.
“Ég kýs að stíga inn í það ferli, taka plönturnar út úr því, umbreyta þeim og gefa nýtt hlutverk sem í sjálfu sér getur varað um eilífð.
Þar með verður breyting á kerfi náttúrunnar. Það verður til annað kerfi þar sem formræn lögmál myndlistarinnar ráða.”
En hið tortímandi afl eldsins kemur líka við sögu í sýningunni að sögn Rósu, það skapar mikilvægt mótvægi og minnir okkur á
umbreytinguna sem alltaf er hluti af öllum kerfum. Öll verkin eru frá tímabilinu 2018 - 2019 nema veggverkið Strá sem er eldra.
Rósa Sigrún Jónsdóttir útskrifaðist frá Kennaraháskóla Íslands árið 1987 og frá Listaháskóla Íslands árið 2001 með BA gráðu og hefur
frá þeim tíma haldið margar einka- og samsýningar hér á Íslandi og erlendis auk þess sem hún hefur að stýrt ýmsum verkefnum.
Sýningin "Kerfi" stendur til 31. mars 2019
Nánar má lesa um verk og feril Rósu Sigrúnar á www.lysandi.is og hér má sjá nánar um viðburðinn.