Sýningin Liðsmenn dregur nafn sitt af verki Hörpu Björnsdóttur frá árinu 1999. Það er eitt verka þeirra sex listamanna sem eiga verk á sýningunni og valin voru úr safneign Listasafns Reykjavíkur.
Liðsmenn Hörpu eru tólf, bera hver og einn sitt einkennistákn og mynda hring á gólfinu. Verkið minnir á náttúrudýrkun fyrri tíma og er einkar viðeigandi nú þegar sól hefur tekið að hækka á lofti.
Önnur verk eru eftir Brynhildi Þorgeirsdóttur, Harald Jónsson, Hrein Friðfinnsson, Ólöfu Nordal og Sigurð Guðmundsson.
Með þessu framtaki vill safnið koma til móts við eitt af hlutverkum sínum sem er að veita aðgang að samtímalistaverkum og bjóða upp á tækifæri til að njóta listaverka þrátt fyrir að öll söfn í landinu séu nú lokuð.
Sýningin stendur til 30. apríl 2020