Lífrænar arkir
Trefjarnar í handgerða pappírnum mynda autt blað. Eins konar tóm sem er undanfari þess sem getur orðið. En í tóminu leynist iðandi líf allra möguleika ef vel er að gáð. Pappírinn er lifandi, lífrænn og sjálfum sér nógur. Hann hefur eigin áferð í kyrrð sinni, myndar eigið landslag með dölum, hæðum og hólum og er í senn viðkvæmur og sterkur, sveigjanlegur og stöðugur.
Af virðingu við efniviðinn les ég í innihaldið og leitast við að vera honum trú. Sumar arkirnar styrki ég með náttúrulegum efnum eins og trjákvoðu og bývaxi. Bræði saman til að styrkja viðkvæman pappírinn og gera hann meðfærilegri. Útsaumur, spor, línur og litir verða að óræðum sögum þar sem lesa má milli línanna.
Handgerður pappír út trefjum verður alltaf einstakur. Engar tvær arkir eru nákvæmlega eins. Pappírinn er náttúrulegur og sjálfbær efniviður listamanna sem vilja þyrma móður jörð og beita þessari þúsunda ára gömlu kunnáttu sem fyrst varð til og þróaðist í Kína en barst nokkrum öldum síðar til annarra Asíulanda og á endanum til Evrópu á 11. öld.
Sýningin stendur yfir frá 5. - 30. maí 2022 og er opin á virkum dögum frá kl. 10 - 16