Lífsfletir

Þann 22. febrúar var opnuð sýning á verkum Ásgerðar Búadóttur í Listasafni Reykjavíkur á Kjarvalsstöðum. Sýningarstjóri er Aldís Arnardóttir listfræðingur.

Sýningin nefnist Lífsfletir – sem er vísun í verk Ásgerðar – Sjö lífsfletir.

Ásgerður Búadóttir (1920-2014) var brautryðjandi á sviði listvefnaðar á Íslandi. Í verkum hennar sameinast aldagamlar aðferðir handverksins og frjáls sköpun nútímamyndlistar. Efniviður Ásgerðar var fyrst og fremst íslensk ull en á áttunda áratug síðustu aldar vöktu glæsilegar veftir hennar verðskuldaða athygli fyrir frumlega efnisnotkun þar sem ull og hrosshár mynda ofna heild og skapa ríka efniskennd.

Ásgerður stundaði nám í Handíða- og myndlistaskólanum og Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Hún var sjálfmenntuð á sviði vefjarlistar að undanskildu stuttu kvöldnámskeiði. Hún var frá upphafi virkur þátttakandi í íslensku og norrænu myndlistarlífi. Máttur teikningarinnar var ávallt mikilvæg undirstaða í verkum Ásgerðar og rík efniskennd og öguð vinnubrögð einkenna allt höfundarverk hennar.

Ásgerður vann til gullverðlauna árið 1956 á alþjóðlegri list- og handverkssýningu í München sem markaði upphaf að glæsilegum og áhrifamiklum ferli hennar. Titill sýningarinnar vísar til verksins Sjö lífsfletir sem Ásgerður óf í minningu sjö merkra listakvenna sem allar voru áberandi á kvennaáratugnum og féllu frá með nokkurra ára millibili.

Sýningin stendur til 3. maí nk.

Sjá nánar á vef Listasafns Reykjavíkur