Listin að vefa - ÚTGÁFUHÓF
Út er komin hjá Vöku-Helgafelli bókin Listin að vefa eftir Ragnheiði Björk Þórsdóttur.
Miðvikudaginn 4. desember kl. 17:00 - 18:30 er útgáfuhóf í húsnæði Heimilisiðnaðarfélagsins í Nethyl 2e. Ragnheiður segir frá tilurð bókarinnar og vefnaður verður til sýnis. Bókin verður á sérstöku kynningarverði þennan dag - léttar veitingar - allir hjartanlega velkomnir!
Vefnaður hefur verið samofinn sögu þjóðarinnar frá landnámi og lengi vel var allur textíll unninn inni á heimilunum. Voðir voru í fyrstu ofnar í kljásteinavefstöðum, hvort sem það var vaðmál í fatnað á heimafólk eða til útflutnings, en síðar komu vefstólar til sögunnar og þá jukust afköstin til muna.
Listin að vefa er yfirgripsmikil og fróðleg bók um sögu vefnaðar á Íslandi. Hér er fjallað um vefnað að fornu og nýju, um vefjarefni og spunatrefjar, tæki og tól, uppsetningu í vefstað og vefstól, bindifræði og mismunandi vefnaðargerðir. Að auki eru sérstakir kaflar um spjaldvefnað og myndvefnað. Bókin er í senn gagnlegt uppsláttarrit og kennslubók í vefnaði.
Ragnheiður Björk Þórsdóttir er veflistamaður, kennari og sérfræðingur á sviði vefnaðar hjá Textílmiðstöð Íslands