Skyr, saltfiskur, krydd, kjöt, ís og hunang var á meðal þess sem nemendur á keramikbraut MÍR beindu sjónum að í rannsókn og hugmyndavinnu við hönnun og framleiðslu á vörum úr postulíni þar sem útgangspunkturinn var fæða og sjálfbærni.
Við lifum á tímum þar sem við verðum að hugsa um neyslu og það sem við framleiðum í hnattrænu samhengi. Hvernig getum við þróað nýjar hugmyndir sem ýta undir skilning á stöðu mála? Hugmyndir sem sporna gegn matarsóun og auka virðingu neytenda fyrir hráefnum, auðvelda okkur að nýta og varðveita hráefni og dýpka upplifun af neyslu fæðunnar. Með þetta að leiðarljósi þróuðu nemendur við keramikdeild Myndlistaskólans í Reykjavík vörur steyptar úr postulíni sem sýndar eru á sýningunni ásamt vinnuferli.