Menningarstyrkir vegna Covid-19

Reykjavíkurborg hefur stækkað menningarpottinn og opnar nú fyrir umsóknir fyrir sjálfstætt starfandi listamenn til að mæta verkefna- og tekjumissi sem þeir verða fyrir vegna áhrifa Covid-19 á samfélagið. Styrkir verða veittir til verkefna sem örva sköpunargleði, listræn verkefni, samræður og menningarlegt framboð í borginni til lengri og skemmri tíma.

Um tímabundið átaksverkefni er að ræða. Sjóðurinn sem nemur 30.000.000 kr. tekur á móti skriflegum umsóknum frá 5. maí – 17. maí 2020. Hægt er að sækja um tvær upphæðir: 500.000 kr. eða 750.000 kr.

Hverjir geta sótt um og hvað er styrkt?

Allar listgreinar hafa aðgang að sjóðnum en umsækjendur þurfa að vera einstaklingar eða hópar sem vinna saman að einstöku verkefni, ekki listastofnanir sem njóta opinbers stuðnings.

Styrkir geta til dæmis fallið til:

  • þróunarverkefna innan viðkomandi listgreinar
  • stafrænnar útgáfu eða flutnings af verkefni s.s. tónleikum, sviðslistum osfrv.
  • annarar listrænnar starfsemi

Styrknum er ekki ætlað að koma í stað launa fyrir verkefni sem hafa fallið niður heldur að skapa vettvang fyrir ný- eða viðbótarverkefni.

Þeir sem geta sótt um eru sjálfstætt starfandi listamenn og hópar sem nú eru án verkefna eða samninga.

Vakin er athygli á því að viðburðir eða verkefni eru ekki styrkt eftir á.

Hvernig er sótt um?

Ekki er sérstakt umsóknareyðublað en skriflega umsókn skal senda í viðhengi á netfangið menning@reykjavik.is og skal sameina umsókn og fylgigögn í eitt pdf-skjal, sé um fleiri en eitt skjal að ræða. Pósturinn skal bera heitið (e. subject) „Menningarstyrkur vegna Covid-19“.

Í umsókninni skal koma fram:

nafn umsækjanda, kennitala og netfang

  • upphæð sem sótt er um (500.000 kr. eða 750.000 kr.)
  • lýsing á verkefni og markmið
  • tímarammi verkefnis
  • fjárhagsáætlun verkefnis
  • samstarfsaðilar – ef við á

Móttaka og mat á umsóknum

Allir umsækjendur eiga að fá staðfestingarpóst þess efnis að umsókn þeirra hafi verið móttekin. Berist slíkur póstur ekki er umsækjandi vinsamlegast beðinn að hafa samband á netfangið inga.maria.leifsdottir@reykjavik.is til að kanna stöðu umsóknar.

Allar umsóknir verða metnar af faghópi sem í sitja fulltrúar BÍL og Hönnunarmiðstöðvar.

Umsóknir verða metnar með hliðsjón af eftirfarandi:

  • markmiðum sem lýst er og hvort líklegt sé að þeim verði náð
  • hvort verk- tíma- og fjárhagsáætlanir séu raunhæfar
  • væntanlegum árangri og ávinningi

Faghópurinn skilar tillögu til menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkurborgar sem úthlutar styrkjunum í júnímánuði. Öllum umsóknum verður svarað.

Sjá nánari upplýsingar á vef Reykjavíkurborgar