Heiti sýningarinnar lýsir andstæðum sem liggja sem rauður þráður gegnum allt ferlið við sköpun verks úr leir. Leirinn er tekinn mjúkur úr jörðinni. Hann harðnar ofan jarðar en komist hann í tæri við vökva getur hann runnið úr greipum okkar og samlagast jörðinni aftur. Í hita eldsins umbreytist hann og verður svo harður að sjálfur tíminn vinnur varla á. Tímanum, sem yfirvinnur allt að lokum, tekst varla að eyða leir hertum í eldi eins og sagan sannar. Það hefur gert okkur kleift að kynnast verkum þeirra formæðra og feðra sem voru með þeim fyrstu til að umbreyta þessu magnaða efni úr mjúku í hart. Í höndum okkar mótum við form þar sem andstæðurnar hart/mjúkt kallast gjarnan á til að skapa spennu og eftirvæntingu í verkum okkar. Hvassir harðir tindar eða mjúkar ávalar hæðir lífsins taka sér bólfestu í huga okkar og í því rými verður til sú hugmynd sem sprettur fram í sköpun okkar. Það kallast innblástur.
Með sýningunni Mjúkt & Hart vilja sýnendurnir við gefa gestum innsýn í hvernig þær, hver fyrir sig, nýta sér þessar andstæður með ólíkum hætti.
Sýnendur eru: Þórdís Baldursdóttir, Svafa Einarsdóttir, Sigrún Jóna Norðdahl, Katrín V. Karlsdóttir, Inga Elín, Guðný Magnúsdóttir, Embla Sigurgeirsdóttir og Dagný Gylfadóttir.
Sýningin stendur til 17. apríl 2019