Nærvera er sýning á nýjum peysum textílhönnuðarins Ýrúrarí á Hönnunarsafni Íslands, í sýningarstjórn hönnunarteymisins Stúdíó Fræ. Ferlið við gerð sýningarinnar byggist á tilraunum með fjölbreyttum textíl nálgunum sem veita ósöluhæfum peysum úr endurvinnslustöðvum sterkari nærveru svo þær haldist í notkun um ókomna tíð. Í anda fyrri verkefna Ýrúrarí eru peysurnar unnar á húmorískan hátt með leikgleði að leiðarljósi. Markmiðið er að lífga upp á hversdaginn.
Yfir sýningartímabil sýningarinnar mun Ýrúrarí vinna grunn fyrir bókverk með yfirliti yfir eldri verk og innsýn yfir efnivið og aðferðir sem hún notar í verk sín. Grunnur bókverksins byggist á peysu sem mun mótast smám saman yfir tímabilið og verður ferlið skrásett á myndrænan hátt jafnóðum á safninu. Meðfram sýningunni fara fram smiðjur og aðrir viðburðir sem skoða má betur á Facebook og heimasíðu Hönnunarsafns Íslands.
Ýr Jóhannsdóttir hefur starfað undir nafninu Ýrúrarí frá 2012 og skapað sér nafn á Íslandi sem og erlendis. Verkefni Ýrúrarí byggjast að mestu á textíl grunni þar sem hún leikur sér með mörk búninga og hversdags klæðnaðar. Undanfarin ár hefur sjálfbærni og endurvinnsla litað verkefni hönnuðarins sem vinnur að mestu með textíl efnivið sem safnast upp á endurvinnslustöðvum.
Árið 2020 var verkefni Ýrúrarí “Peysa með öllu”, sem unnið var í samstarfi við fatasöfnun RKÍ, tilnefnt til Hönnunarverðlauna Íslands. Verkefnið var þróað áfram á opinni vinnustofu Hönnunarsafns Íslands árið 2021 í formi skapandi fataviðgerðarsmiðja. Smiðjan hefur nú ferðast víðsvegar um Evrópu.
Verk eftir Ýrúrarí má m.a finna í ýmsum spennandi fataskápum en einnig í safneignum Textiel Museum í Hollandi, Museum für Kunst und Gewerbe í Hamborg, Museum of International folk Art í Nýju Mexíkó, National Museums of Scotland og Hönnunarsafni Íslands.
Stúdíó Fræ er alþjóðlegt hönnunarstúdíó sem starfar bæði á Íslandi og Kína. Stúdíó Fræ samanstendur af hönnuðunum Niki Jiao og Yiwei Li sem luku báðar meistaragráðu í hönnun við Listaháskóla Íslands. Störf Stúdíó Fræ eru fjölbreytt: Hönnunar ráðgjöf, markaðssetning, vöruþróun, sýningarhönnun, margmiðlun, útgáfua og ljósmyndun. Hönnunarstúdíóið hefur m.a unnið að verkefnum með Bioeffect, 66°norður, fatahönnuðinum Magneu ásamt myndaþáttum fyrir tímaritið HA.