Þær Sonja Bent og Elín Hrund Þorgeirsdóttir hafa komið sér upp sýningar- og vinnuaðstöðu í anddyri Hönnunarsafnsins. Í sumar munu þær vinna að rannsóknarverkefni sem felur í sér að kortleggja ilmi í íslenskri náttúru með því að eima jurtir. Samhliða kortlagningunni nýta þær afurðirnar í hönnun og framleiðslu á handgerðum reykelsum, kertum, ilmmyndum og veggfóðri svo eitthvað sé nefnt.
Sonja Bent er fatahönnuður og hefur starfað sem slíkur undanfarin fimmtán ár. Fyrir þremur árum veiktist faðir hennar alvarlega og hún tók að sér að annast hann. Fyrir vikið eyddu þau miklum tíma saman og grúskuðu ýmislegt, aðallega að eima sem var sérstakt áhugamál Þóris Bent heitins. Með því að miðla margra ára þekkingu og reynslu gaf hann Sonju lykil sem opnaði henni heim djúpt inn í íslenska náttúru.
Elín Hrund er menntuð í heimspeki, hönnun og menningarmiðlun og hefur undanfarið starfað sem verkefnastjóri hjá Hönnunarmiðstöð Íslands. Hún hefur komið að skipulagningu og framkvæmd ýmissa hönnunarverkefna ásamt því að hanna og markaðssetja eigin vörur. Elín Hrund gekk til samstarfs við Sonju fyrir hálfu ári síðan.