Á þessari fyrstu sýningu ársins mun Melkorka Matthíasdóttir leirlistakona sýna keramikmuni.
Melkorka er mikill náttúruunnandi og þekkir leirinn, efnivið sinn, líklega betur en margur enda menntuð bæði sem jarðfræðingur og leirlistakona. Hún er með meistaragráðu í ísaldarjarðfræði frá Háskólanum í Bergen og hefur bæði starfað og kennt sem jarðfræðingur. Hún átti sér þó annan leyndan draum og það var að tjá sig í gengum listsköpun. Árið 2021 lauk hún diplómagráðu í leirlist frá Myndlistarskólanum í Reykjavík.
Á sýningunni eru leirmunir, krúsir, diskar og vegglistaverk. Það má segja að hér sé á ferðinni listsýning og ákveðið rannsóknarverkefni. Melkorka hefur þróað aðferðir við að nýta íslensk jarðefni og plöntur sem innhaldsefni í glerunginn utan á steinleirinn með því að þurrka þau og brenna til ösku. Meðal efnis í glerungum er beykiaska og taðaska.
Við hvetjum ykkur til að koma og sjá leirlistmuni úr höndum fræðikonu sem vinnur með
sjálfbærni að leiðarljósi.
Sýningin stendur til 3. febrúar 2023.
Listasalur Mosfellsbæjar er að Þverholti 2 í Mosfellsbæ, gengið inn hjá Bókasafni Mosfellsbæjar.
Opið virka daga 9-18 og laugardaga 12-16