Umsóknarfrestur vegna Handverks og hönnunar í Ráðhúsi Reykjavíkur rann út á miðnætti í gær 15. september. Þar sem nokkuð hefur borið á því að umsóknir hafi ekki skilað sér hefur verið ákveðið að hafa opið fyrir umsóknir til miðnættis 20. sept.
Þeir sem hafa sótt um en ekki fengið staðfestingu senda í tölvupósti eru beðnir um að hafa samband við skrifstofu til að athuga hvort umsóknin hafi skilað sér (s. 551 7595 eða fjola@handverkoghonnun.is)
Þrátt fyrir mikið óvissuástand er stefnt að því að halda hinn árvissa viðburð HANDVERK OG HÖNNUN í Ráðhúsi Reykjavíkur í nóvember 2020. Að sjálfsögðu er fylgst grannt með þróun mála varðandi samkomur, fjöldatakmarkanir o.þ.h. og tilmælum Almannavarna fylgt.
Í ljósi aðstæðna hefur verið ákveðið að hætta við prentun og flestar auglýsingar og lækka þar með þátttökugjöldin umtalsvert. Ákveðið hefur verið að treysta einungis á samfélagsmiðla og útvarp til kynningar. HANDVERK OG HÖNNUN í Ráðhúsi Reykjavíkur á sér langa sögu og er þekktur viðburður í samfélaginu.
Það liggur fyrir að afkoma fólks í skapandi greinum hefur hrunið í kjölfar Covid 19. Gert er ráð fyrir miklum fjölda umsókna. Þess vegna hefur verið ákveðið að leggja áherslu á sýnendur sem eru með muni sem eru að mestu eða að öllu leyti unnir á Íslandi.
Vegna fyrirspurna er það tekið fram að ef svo illa fer að það þurfi að aflýsa viðburðinum verða þátttökugjöld endurgreidd að fullu.
Sýningin stendur í fimm daga og er aðgangur ókeypis.