Laugardaginn 26 .ágúst milli þrjú og fimm tekur Ólöf Erla á móti gestum á verkstæði sitt í Hamraborg 1. Þar vinnur hún margs konar verk í leir og postulín, framleiðir eigin hönnun í litlu magni en er einnig í samstarfi við aðra hönnuði og listamenn. Verk Ólafar einkennast af ríkri efniskennd og tilraunagleði. Hugmyndalega leitar hún mikið í landslag og litaflóru Íslands. Hún hefur lagt áherslu á að vera opin gagnvart möguleikum efnisins og hefur ásamt öðrum rannsakað nýjar leiðir í samsetningu og gerð þess, sérstaklega innlendra efna. Ólöf er rekstraraðili að Kirsuberjatrénu, Vesturgötu 4, Reykjavík. Hún hefur sýnt verk sín víða um heim gegnum árin.