24. nóvember, 2022
FG
Verið velkomin á opnun tveggja sýninga, Línur, flækjur og allskonar, einkasýningu Guðrúnar Gunnarsdóttur og You Are Here / Jesteś tutaj / Du er her / Þú ert hér, sýningu Vena Naskręcka / Michael Richardt, í Listasafni Reykjanesbæjar, laugardaginn 26. nóvember kl. 14:00.
-
Súlan
Við sama tilefni verður Súlan, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, afhent. Súlan er veitt árlega einstaklingi eða fyrirtæki sem unnið hefur vel að menningarmálum í bæjarfélaginu.
-
Línur, flækjur og allskonar
Einkasýning Guðrúnar Gunnarsdóttur
Guðrún Gunnarsdóttir er frumkvöðull á sviði þráðlistar og gefur sýning hennar góða mynd af þróun listamannsins frá myndvefnaði á áttunda áratug síðustu aldar, til þrívíddarmynda sem einkenna myndlist hennar í dag.
Þráðlist eins og sú sem Guðrún Gunnarsdóttir ástundar er ótvírætt þrívíddarlist í klassískum skilningi, þótt listakonan gangi í berhögg við ýmsar siðvenjur sem fylgt hafa slíkri list frá örófi alda. Til að mynda hirðir hún ekki um að setja verk sín á stalla, og þar með bæði upphefja þau og staðsetja utan seilingar. Þess í stað fá þau að leika lausum hala í námunda við okkur, hanga ofan úr lofti, fikra sig ofur varlega upp og niður veggi, eða mynda smágerðar lífrænar einingar niður við fótskör. Og í stað þess að kalla á athygli, eins og stallsettir skúlptúrar óneitanlega gera, eru verk Guðrúnar gerð til að birtast okkur eins og fyrir tilviljun, jafnvel koma þægilega á óvart, ekki ósvipað og ljóðlínur með óvæntu niðurlagi.
Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur.
Sýningin er styrkt af Myndlistarsjóði.
Sýningin stendur til og með 5. mars 2023.
-
You Are Here / Jesteś tutaj / Du er her / Þú ert hér
Vena Naskręcka / Michael Richardt
Vena og Michael eru gjörningalistamenn og mun sýningin verða vitnisburður um hvar þau eru stödd á þessum ákveðna tímapunkti og skrásetning á því sem þeim er nú hugleikið. Þau eru hér og nú, erlendir ríkisborgarar á Íslandi, að setja mark sitt á Listasafn Reykjanesbæjar þar sem þau ríkja í ákveðinn tíma.
Vena Naskręcka (1986) vinnur að myndlist á þverfaglegan hátt, með gjörningum, skúlptúr, fundnum hlutum og myndbandi, og byggja viðfangsefni hennar meðal annars á heimspeki, taugavísindum, fötlunarfræði og tækni. Naskręcka miðlar þeim með líkama sínum, en hún lítur á hann sem boðleið fyrir sjónræn, tilfinningaleg og vitsmunaleg samskipti.
Naskręcka er útskrifuð með MA-gráðu í myndlist frá CIT Crawford College of Art & Design, Cork, Írlandi, BA-gráðu í myndlist frá Hanze University Groningen – Academy Minerva, Hollandi og lærði keramík í the Jacek Malczewski School of Fine Arts í Czestochowa, Póllandi. Hún er fædd í Czestochowa, Póllandi, hún býr og starfar í Reykjanesbæ.
Michael Richardt (1980) er gjörningalistamaður sem sérhæfir sig í gjörningum byggðum á tíma og lengd. Hann hugsar út frá mæðraveldi og skapar verk með sjálfþróuðu kerfi byggðu á litrófi.
Richardt útskrifaðist með MFA-gráðu í sviðslistum frá Listaháskóla Íslands. Hann stundaði nám við Amsterdam University of the Arts, Amsterdam, Hollandi, Codarts Circus School, Rotterdam, Hollandi og klassíska olíumálun hjá listamanninum Poul Winther, Hjørring, Danmörku. Richardt hefur unnið sem dansari fyrir We Go, komið fram á Copenhagen Jazz Festival Danmörku, og sem leikari í „Polishing Iceland“ með Reykjavík Ensemble í Tjarnarbíói.
Richardt er fæddur í Danmörku og á einnig ættir að rekja til Níger, hann býr og starfar í Reykjavík.
Sýningarstjóri er Helga Arnbjörg Pálsdóttir, listfræðingur.
Sýningin er styrkt af Safnasjóði.
Listamennirnir eru styrktir af Myndlistarsjóði og Statens Kunstfond.
Sýningin stendur til og með 5. mars 2023.