Fatahönnunarfélag Íslands óskar eftir tilnefningum til Indriðaverðlaunanna sem afhent verða á fimmtudaginn 12. apríl í IÐNÓ.
Óskað er eftir tilnefningu á þeim fatahönnuði sem þykir hafa skarað fram úr á árunum 2016-2018.
Í kynningu frá fatahönnunarfélaginu segir:
„Við biðjum þig um að velja þann fatahönnuð sem þér þykir hafa skarað fram úr og senda á fatahonnunarfelag@honnunarmidstod.is , nafn hönnuðarins og færa rök fyrir vali þínu, fyrir miðnætti 8. apríl næstkomandi.“
Sérstök dómnefnd mun taka tilnefningar félagsmanna til greina við val á þeim hönnuði sem hlýtur Indriðaverðlaunin í ár. Fatahönnuðurinn sem valinn verður hlýtur Indriðaverðlaunin en þau eru ætluð til afhendingar annað hvert ár.
NÁNAR UM VERÐLAUNIN:
Fatahönnunarfélag Íslands veitir Indriðaverðlaunin í annað sinn á Uppskeruhátíð félagsins sem að þessu sinni er haldin samhliða SmallTalks, fyrirlestraröð Hönnunarmiðstöðvar þann 12. apríl 2018.
Verðlaunin eru kennd við klæðskerann Indriða Guðmundsson, heitinn, sem þekktur var fyrst og fremst fyrir gæði og fagmennsku. Í ár hlýtur sá fatahönnuður Indriðaverðlaunin sem þykir hafa skarað fram úr á árunum 2016-2018.
VIÐMIÐ
Við val á hönnuði er litið til þeirra fatahönnuða sem eru með heilsteyptar fatalínur, hafa verið virkir á árunum 2016-2018 og þykja hafa skarað fram úr á sínu sviði. Verðlaunin eru innblásin af starfi Indriða Guðmundssonar og því eru gæði og fagmennska lykilorð við val hönnuðar, hvort sem kemur að hugmyndum eða frágangi.