Eftir mikla erfiðleika í rekstri undanfarin ár leit út fyrir að HANDVERK OG HÖNNUN yrði lagt niður um áramót. Búið var að segja starfsfólki upp störfum og stofnfélagar höfðu gefið leyfi fyrir lokunarferli vegna vonlausrar fjárhagsstöðu. Á Þorláksmessu bárust hins vegar þær fregnir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti að þar væri vilji til að finna HANDVERKI OG HÖNNUN einhvern farveg.
Í ársbyrjun 2022 lagði ráðuneytið fram drög að nýjum samningi. Samningurinn gildir til ársloka 2022. Samningurinn er efnismikill og þar er m.a. gerð krafa um að farið verði í stefnumótun og verkefnavali verði forgangsraðað. Stjórn HANDVERKS OG HÖNNUNAR fundaði 10. janúar og samþykkti undirritun á fyrirliggjandi samningi en bendir á að fjármagnið sem fæst vegna 2022 dugar ekki fyrir óbreyttum rekstri.
Stjórn þakkar mennta- og menningarmálaráðherra fr. Lilju Alfreðsdóttur fyrir að sýna starfi HANDVERKS OG HÖNNUNAR skilning og áhuga en leggur áherslu á að í framtíðinni verði samningar um starfsemina gerðir til nokkurra ára í senn. Verkefni eru lengi í undirbúningi og fjárhagslegt óöryggi ár eftir ár kemur niður á starfseminni.
Fyrsta verkefni nýs árs er stefnumótun og við munum þurfa á liðsinni starfandi handverks- og listiðnarfólks í þeirri vinnu. Í undirbúningi er samstarfssamningur við óháðan fagaðila sem mun taka að sér að leiða það starf.