Nýlega kom út bókin Líf og list Aðalbjargar Jónsdóttur – Prjónað af fingrum fram eftir Kristínu Schmidhauser Jónsdóttur. Í bókinni er fjallað um undurfína handprjónaða kjóla eftir Aðalbjörgu. Í tilefni af útkomu bókarinnar heldur Kristín fyrirlestur um efni hennar í húsnæði Heimilisiðnaðarfélags Íslands í Nethyl 2e laugardaginn 19. nóvember kl. 14. Aðalbjörg sjálf verður 100 ára á þessu ári en er við góða heilsu og mun hún heiðra gesti með nærveru sinni. Einnig verða til sýnis á staðnum kjólar eftir Aðalbjörgu í eigu Heimilisiðnaðarfélagsins.
Bókin er helguð fáguðu handverki og listsköpun Aðalbjargar en hún starfaði lengst af sem kjólameistari. Eftir sextugt hóf hún að prjóna eingirniskjóla bókstaflega af fingrum fram. Handverk hennar er einstaklega fallegt, enda er hún gædd mikilli smekkvísi og næmu auga fyrir sniðum, formum og litum. Auk þess fléttast inn í efni bókarinnar tóvinnusaga íslendinga.
Kristín Schmidhauser Jónsdóttir er höfundur bókarinnar. Hún lauk handavinnukennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1959 og meistaragráðu í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2014. Einnig nam hún skapandi textíliðju við Kunstgewerbeschule Zürich og var þar í hópi starfandi textíllistakvenna. Kristín hefur stundað kennslu á öllum skólastigum, verið virk textíllistakona og haldið einkasýningar auk þátttöku í samsýningum hér á landi og erlendis.
Aðgangseyrir er 1.000 kr. / 500 kr. fyrir félagsmenn Heimilisiðnaðarfélagsins – kaffi og með því innifalið.