Ragna Fróðadóttir, textílhönnuður og myndlistarmaður er bæjarlistamaður Kópavogs 2019. Valið á Rögnu var kynnt við hátíðlega viðhöfn í Salnum í Kópavogi þann 24. maí sl.
Ragna mun sem bæjarlistamaður vinna í samvinnu við Menningarhúsin í Kópavogi að verkefnum og viðburðum sem tengjast textíl og umhverfissjónarmiðum. „Ég hef mikið velt fyrir mér umhverfisvitund í tengslum við textíl og hef áhuga á að tengja saman börn og eldri borgara í því verkefni. Samvinna kynslóða í handverki er mjög áhugaverð að mínu mati og verður spennandi að fá tækifæri til að vinna að henni og vil ég þakka lista- og menningarráði fyrir tilnefninguna sem bæjarlistamaður Kópavogs,“ segir Ragna.
Það var Karen E. Halldórsdóttir formaður lista- og menningarráðs sem kynnti tilnefninguna að viðstöddum Ármanni Kr. Ólafssyni bæjarstjóra Kópavogs.
Nánar um Rögnu:
Ragna Fróðadóttir er fædd árið 1970. Hún vinnur á mörkum myndlistar og hönnunar. Hún lærði fata- og textílhönnun í París á árunum 1992-1995 og nam síðan við textíldeild Myndlista- og Handíðaskólann í Reykjavík 1996-1998. Ragna býr yfir víðtækri reynslu úr myndlistar- og hönnunarheiminum. Í dag er hún deildarstjóri textíldeildar Myndlistaskólans í Reykjavík. Einnig kennir hún sjónræna rannsóknarvinnu og Trend Forecasting við fatahönnunardeild LHÍ og textíldeild Myndlistaskólans í Reykjavík. 2008-2015 bjó Ragna að stærstum hluta til í New York borg þar sem hún vann fyrir Lidewij Edelkoort, einn þekktasta futurista hönnunarheimsins. Hún starfaði þar sem ráðgjafi og verkefnastjóri, ásamt því að reka Bandaríkjadeild Trend Union - fyrirtæki Lidewij Edelkoort. Á árunum 2012-2014 bjó Ragna einnig í Berlín og skipti tíma sínum á milli NYC og Berlín.
Þar var hún meðal annars sýningarstjóri hönnunar- og listsýningarinnar Tölt-Inspiration Islandspferd. Það var viðamikið sýningar verkefni á vegum Sendiráðs Íslands sem var sett upp í tengslum við Heimsmeistaramót íslenska hestsins í Berlín 2013. Sýningin var síðar sett upp víðar sem farandsýning – meðal annars í Norræna húsinu í Reykjavík. Í tæp 10 ár rak Ragna eigin vinnustofu og verslun í miðbæ Reykjavíkur og hannaði fatalínu undir nafninu Path of Love Design. Á þeim tíma tók hún þátt í fjölda sýninga bæði hérlendis og erlendis og hannaði fatalínur og textíl fyrir einstaklinga og hópa. Ragna hefur skipulagt alþjóðlegar ráðstefnur bæði á Íslandi, í New York og Þýskalandi. Nýverið skipulagði hún ráðstefnuna Arfleifð mætir framtíð, í tengslum við fund Norrænu textílsamtakanna – NTA - á Íslandi. Ráðstefnan var styrkt af Reykjavíkurborg og Nordisk Kulturfond og var jafnframt hluti af dagskrá Hönnunarmars 2019.