Tvær stórar samsýningar hafa verið opnaðar, önnur heitir Í mannsmynd og samanstendur af 50 verkum sem öll tengjast manneskjunni í einhverri birtingarmynd. Hin ber heitið Gróður jarðar og hugarflugs og hefur sýningarstjórinn Níels Hafstein skapað sannkallaðan töfragarð úr verkum fjölda höfunda.
Safnasafnið var stofnað 1995 af þeim Níelsi Hafstein og Magnhildi Sigurðardóttur og fagnar því 25 ára afmæli á þessu ári. Af því tilefni er á sýningum safnsins þetta árið sýnt fjölbreytt úrval úr safneigninni og skapað létt og leikandi flæði milli sala og hæða. Gróður leikur stórt hlutverk í sýningunum en einnig letur, umhverfismál, huldufólk, barnslegt hugarfar, kjarnar, innsæi og fagurfræði. Kynnt eru verk eftir um 150 þekkta sem óþekkta höfunda til að flagga fjölbreytileika safneignarinnar.
Sýnd eru verk listafólks sem vinnur að list sinni á Sólheimum í Grímsnesi og eru í eigu safnsins en Sólheimar fagna 90 ára afmæli í ár. 200 ár eru síðan að Sölvi Helgason fæddist í Skagafirði og til að minnast þessara 200 ára tímamóta setur Safnasafnið upp sýningu á verkum hans. Magnhildur Sigurðardóttir sýnir kyrtil sem hún saumaði samkvæmt hugmyndum Sigurðar Guðmundssonar málara (1833-1874) sem hann setti fram árið 1870 til að stuðla að endurnýjun íslenska kvenbúningsins og börnin í Álfaborg sýna verk sín í Blómastofu. Tvær stórar samsýningar opna, önnur heitir Í mannsmynd og samanstendur af 50 verkum sem öll tengjast manneskjunni í einhverri birtingarmynd. Hin ber heitið Gróður jarðar og hugarflugs og hefur sýningarstjórinn Níels Hafstein skapað sannkallaðan töfragarð úr verkum fjölda höfunda.
Í bókastofu má sjá myndir úr handritum og brúðusafnið með sínum 400 brúðum er á sínum stað. Hreinn Friðfinnsson vinnur með einkennilegan atburð sem gerðist í safninu og Magnús Logi Kristinsson sýnir ljósmyndir af gjörningum.
Guðrún Bergsdóttir sýnir einstök útsaumsverk sín þar á meðal er fyrsta myndin sem hún saumaði út án forskriftar og sú nýjasta. Gunnhildur Hauksdóttir samdi hljóðverk að beiðni safnsins eftir uppdráttum að myndvefnaði eftir Jóhönnu Jóhannsdóttur, Helena Ósk Jónsdóttir sýnir teikningar af hestum og hestastyttur í anddyri og Níels Hafstein vekur athygli á vatnsskorti og óþægilegum staðreyndum um vistkerfi sjávar í verkum sínum.