Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og Sunneva Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri sjálfseignastofnunarinnar Handverks og hönnunar, skrifuðu nýverið undir samning um stuðning ráðuneytisins við starfsemi stofnunarinnar. Meginmarkmið hennar er að stuðla að eflingu handverks, listiðnaðar og hönnunar og að auka skilning almennt á menningarlegu, listrænu og hagnýtu gildi þess með fjölbreyttri kynningarstarfsemi.
„Handverk og hönnun hefur lyft grettistaki fyrir handverksfólk vítt og breitt um landið sem grasrótarsamtök listiðnaðarfólks. Með þessum samningi viljum við meðal annars stuðla að nýliðun í þeirra hópi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
„Það er mjög mikilvægt að fá þennan samning undirritaðan vegna 2023, en mikil óvissa hefur verið í mörg ár um starfsemi Handverks og hönnunar. Fjárstuðningurinn fyrir árið 2023 er sá sami og var fyrir 2022. Þessi fjárveiting býður ekki upp á að hægt verði að auglýsa eftir nýjum starfsmanni og það þýðir færri verkefni, minni starfsemi. En ráðherra hefur sýnt verkefninu mikinn skilning og ýmsar hugmyndir eru í gangi um viðbótarfjármagn og vonandi fæst samningur um stuðning til fleiri ára í senn á næsta ári. Það er mjög vandasamt að skipuleggja starfið þegar óvissa er um framhald starfseminnar á hverju ári eins verið hefur undanfarin ár,“ segir Sunneva Hafsteinsdóttir framkvæmdastjóri Handverks og hönnunar.