Heimilisiðnaðarfélag Íslands hefur nú endurprentað Íslenska sjónabók sem lengi hefur verið uppseld. Í bókinni má finna íslensk munstur frá 17., 18. og 19. öld sem notuð voru í hannyrðum eins og útsaumi og vefnaði. Bókin er sannkölluð biblía handverksfólks og hönnuða en hún er hátt í 800 blaðsíður. Geisladiskur með öllum munstrunum fylgir til frjálsrar notkunar.
Bókin er fyrst um sinn aðeins til sölu í verslun Heimilisiðnaðarfélagsins í Nethyl 2e. Verð 23.500 kr. Opið mán-fim 12-18 en fös 12-16. Velkomin!
Sjónabók er handrit með munstrum sem notuð voru í útsaumi, vefnaði og til ýmissa hannyrða áður fyrr. Heimilisiðnaðarfélag Íslands í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands gáfu út Íslenska sjónabók vorið 2009. Þar má finna íslensk munstur frá 17., 18. og 19. öld sem varðveitt eru í 10 handritum á Þjóðminjasafninu og Þjóðminjasafni Dana og eru hér í einni bók. Texti bókarinnar er bæði á íslensku og ensku. Sjónabókinni fylgir geisladiskur með öllum munstrunum sem hægt er að prenta út að vild. Allt til frjálsrar notkunar í hönnun, handverk og kennslu. Íslensk sjónabók á að vera brunnur hugmynda að nýsköpun með sterka tilvísun í sérstakan íslenskan menningararf.