Skara fram úr í handverki og hönnun

Handhafar viðurkenninga ásamt Þórdísi Kolbrúnu ráðherra, Ninju Ómarsdóttur verkefnastjóra og Sunnevu…
Handhafar viðurkenninga ásamt Þórdísi Kolbrúnu ráðherra, Ninju Ómarsdóttur verkefnastjóra og Sunnevu Hafsteinsdóttur sem var í dómnefnd.

Skara fram úr í handverki og hönnun

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra afhenti viðurkenninguna AWARD OF EXCELLENCE 2017 þann 12. desember við hátíðlega athöfn í listamiðstöðinni Mengi í Reykjavík. Viðurkenningin er veitt af markaðsstofunni Icelandic lamb til samstarfsaðila er þykja hafa skarað fram úr í hönnun og handverki úr sauðfjárafurðum. Fyrr á þessu ári voru veittar sambærilegar viðurkenningar til veitingastaða.

Helstu verkefni Icelandic lamb snúa að markaðssetningu til erlendra ferðamanna á Íslandi og inn á sérvalda markaði í útlöndum. Þetta er m.a. gert með öflugri verðlaunaherferð á samfélagsmiðlum og samstarfi við um 150 aðila í veitingarekstri, verslun, hönnun og fleiru. Tilgangurinn er að stuðla að því að íslenskum sauðfjárafurðum sé skapaður veglegur sess með sérstöku merki til að auðkenna íslenskar sauðfjárafurðir með tilvísun til uppruna, gæða, hreinleika og sérstöðu.

Megin markmið viðurkenningarinnar er að auka skilning og þekkingu gæðum hráefnisins, vekja almenna athygli á möguleikum þess í hönnun og vinnslu, ásamt því að veita samstarfsaðilum verðlaun fyrir vel unnin störf. Samstarfið er mjög mikilvægt til að auka verðmætasköpun úr íslenskum sauðfjárafurðum. Þeim er veitt viðurkenning er þykja hafa skarað fram úr. Þetta er hugsað sem hvatning til frekari verðmætasköpunar, nýsköpunar og vöruþróunar á íslenskum sauðfjárafurðum.

Fimm manna dómnefnd valdi handhafa viðurkenninganna að þessu sinni. Í henni sátu Emma Eyþórsdóttir dósent við Landbúnaðarháskóla Íslands, Sunneva Hafsteinsdóttir framkvæmdastjóri HANDVERKS OG HÖNNUNAR, Rúna Thors fagstjóri vöruhönnunar við Listaháskóla Íslands, Svavar Halldórsson framkvæmdastjóri Icelandic lamb og Ninja Ómarsdóttir verkefnastjóri hjá Icelandic lamb.

Þetta var í fyrsta sinn sem þessi viðurkenning er veitt fyrir handverk og hönnun úr íslenskum sauðfjárafurðum, en verður framvegis árviss viðburður.

Handhafar AWARD OF EXCELLENCE 2017 eru Hélène Magnússon fyrir Prjónakerlingu, Sigurður Már Helgason fyrir gærukollinn Fuzzy, Forystusetrið – Fræðasetur um forystufé, og nýja hönnunarmerkið WETLAND.

Prjónakerling

Ullarband frá Hélène MagnússonHönnun Hélène Magnússon er falleg, frjó og vönduð. Hönnunin hefur sterk tengsl við Ísland og íslenska menningu. Hélène vinnur með íslenskar prjónahefðir af mikilli hollustu og þróar hefðbundin munstur í nýtt, ferskt samhengi. Hélène fylgir hráefninu frá byrjun, velur sjálf ullina sem hún lætur sérspinna fyrir sig í einstakt íslenskt ullarband, og velur liti sem tengjast íslenskri náttúru.
Hélène hefur gefið út tvær prjónabækur sem byggja sérstaklega á gömlum íslenskum hefðum og munstrum. Fyrst bókina Rósaleppaprjón í nýju ljósi og svo bókina Íslenskt prjón og í vinnslu er ný bók sem heitir Kjólar í blúndum um höfundarverk Aðalbjargar Jónsdóttur. Einnig skipuleggur Hélène gönguferðir um landið þar sem hún blandar saman íslenskri náttúru, íslenskri menningu og prjónanámskeiðum. Hélène miðlar vel þekkingu sinni á hráefninu ásamt gæðum þess og möguleikum í vinnslu. Framsetning á efninu er fagleg og skemmtileg, og nýtir hún vel mismunandi vefmiðla.

Heimasíða Prjónakerlingar: www.prjonakerling.is

Fuzzy

Fuzzy kollur eftir Sigurð Má HelgasonSigurður Már Helgason hannaði gærukollinn Fuzzy upphaflega árið 1972 sem hefur nú fengið þá stöðu að vera sígild íslensk hönnun. Kollurinn naut strax mikilla vinsælda á áttunda áratugnum og var meðal annars ein vinsælasta fermingargjöf stúlkna á þeim tíma. Hann sló síðan rækilega í gegn á ný upp úr aldamótum og síðan þá hefur eftirspurnin verið mikil. Hver kollur er handgerður af Sigurði og velur hann gærurnar vel sem prýða kollinn. Má segja að hver kollur er með sitt eigið sérkenni og hvert eintak er einstakt vegna þess hve ólíkar gærurnar eru. Einnig smíðar Sigurður sérstakan kamb fyrir eigendur kollanna til að kemba gæruna.
Sigurður miðlar vel efni sínu á vefsíðu sinni, er með handhægar umbúðir undir vöru sína sem auðvelt er að ferðast með og hefur hann vakið athygli víða hér- og erlendis með Fuzzy.

 

Heimasíða Fuzzy: www.fuzzy.is

Fræðasetur um forystufé

Fræðasetur um forystuféFræðasetur um forystufé er staðsett á Svalbarði í Þistilfirði. Forystufé hefur verið órjúfanlegur hluti af sauðfjárhaldi Íslendinga allt frá upphafi byggðar hér á landi. Með harðfylgi sínu, vitsmunum og einstökum forystueiginleikum hefur það margsannað gildi sitt og not, þó sérstaklega við beitarbúskap fyrri tíma.Fullvíst er talið að fé með hegðunarmynstur íslenska forystufjárins sé hvergi þekkt í heiminum nú á dögum nema á Íslandi. Það er því einstakur stofn í heiminum með mikla sögu og sem vert er að varðveita. Sýningin á setrinu er glæsilegt framtak þar sem mikill metnaður var lagður í að vekja áhuga fólks á mikilvægi þess að vernda stofninn og bjarga honum frá útrýmingarhættu. Hugmyndavinna og hönnun sýningar setursins er faglega unnin og vandað til verka með aðkomu ólíkra fagaðila. Einnig eru ýmsar vörur til sölu á setrinu sem unnar hafa verið úr afurðum forystufjárins og vert er að nefna að ullin er sérstaklega mjúk og frábrugðin annarri íslenskri ull. Fræðasetrið miðlar vel efni sínu á vefmiðlum sínum, framsetning á efninu er fagleg og skemmtileg. Aðalhvatamaður að uppbyggingu Fræðaseturs um forystufé er Daníel Hansen, nú forstöðumaður setursins.

Heimasíða Fræðaseturs um forystufé: www.forystusetur.is

Wetland

WetlandWETLAND er nýtt íslenskt hönnunarmerki sem framleiðir vandaðar og fallegar lífsstílsvörur, hannaðar undir norrænum áhrifum. Að baki þess er þverfaglegt teymi sem sérhæfir sig í hönnun á vörum úr íslensku lambaskinni (mokka). Snið eru einföld og klassísk þar sem innblásturs er leitað í fegurð og dulúð íslenskrar náttúru. Hráefni og hönnun haldast í hendur og mynda tímalausa vöru sem er ætlað að endast kynslóð fram af kynslóð. Allt efni WETLAND er ákaflega faglega framsett og mjög vel miðlað á vefnum. Þetta er spennandi fyrirtæki sem er nýtt á markaðinum sem vert er að fylgjast með. WETLAND samanstendur af Sigríði Sunnevu Vigfúsdóttur fatahönnuði, Elísabetu Jónsdóttur grafískum hönnuði og Katrínu Dóru Þorsteinsdóttur MBA, rekstrar- og viðskiptafræðingi.

Heimasíða WETLAND: www.wetland.is