Í kvöld, fimmtudaginn 4. mars kl. 20 er samprjón Heimiliðnaðarfélags Íslands í streymi á netinu (facebook-live). Þetta er seinna kvöldið af tveimur um Skotthúfu frú Auðar, skotthúfu úr lopa sem Auður fékk verðlaun fyrir í samkeppni Álafoss árið 1970. Farið er í frágang á húfunni, kennt hvernig gera á skúf og húfa og skúfur settur saman og samskeytin hulin með skotthúfuhólki. Uppskrift af húfunni er ókeypis og aðgengileg á heimasíðu HFÍ hér.
Umsjón: Guðný María Höskuldsdóttir & Þórdís Halla Sigmarsdóttir
Auður Sveinsdóttir húsfreyja á Gljúfrasteini var annáluð hannyrðakona. Auður var listfeng og handlagin og eftir hana liggja fjölmörg einstök textílverk og handavinna. Hún lét einnig til sín taka í skrifum um handverk og hannyrðir og samdi prjónauppskriftir. Auður tengist Heimilisiðnaðarfélaginu sterkum böndum en hún starfaði í ritnefnd ársritsins Hugur og hönd á árunum 1971-1984. Árið 1970 hlaut Auður viðurkenningu í samkeppni Álfoss fyrir fallega skotthúfu úr þreföldum plötulopa en uppskriftin hefur nú verið endurgerð fyrir léttlopa. Nánari upplýsingar um Auði má nálgast á heimasíðu Gljúfrasteins hér.