Skúlaverðlaunin 2018 voru afhent í lok fyrsta opnunardags sýningarinnar Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 22. nóvember. Verðlaunin hlaut Guðný Hafsteinsdóttir keramiker og hönnuður sem hannar undir merkinu Gudnyhaf. Verðlaunin hlaut hún fyrir tappa í flöskur sem kallast "Beware" og eru ísbjarnarhöfuð úr steyptu postulíni.
Um hugmyndina að Beware segir Guðný: „Hugmyndin að baki var að gera dýr sem eiga það sameiginlegt að vera ógnvænleg en er einnig ætlað að höfða tilfinningalega til fólks.“ Fyrsti tappinn var jólakötturinn og er hann búinn að vera í sölu undanfarin tvö ár bæði hér heima og í Danmörku og hefur verið vel tekið. Ísbjörninn er alveg nýr og er til í ýmsum litum eins og kötturinn.
Skúlaverðlaunin eru styrkt af Samtökum iðnaðarins og var það Guðrún Birna Jörgensen frá SI sem afhenti verðlaunin.
Sýningin Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur var haldin dagana 22.-26. nóvember og voru þátttakendur 55 talsins. Sýningin gekk mjög vel og mikill fjöldi gesta lagði leið sína í Ráðhúsið um síðustu helgi. Hér má sjá myndir frá sýningunni.